Kristján Þór Júlíusson alþingismaður og oddviti sjálfstæðismanna í Norðausturkjördæmi hefur boðað til blaðamannafundar kl. 16,15 í Vaðlaheiði á útsýnispalli gegnt Akureyri þar sem hann mun kynna áform sín í forystukjöri Sjálfstæðisflokksins sem fram fer á landsfundi flokksins þann 29. mars nk.
Í fundarboðinu segir jafnframt að Kristján Þór muni jafnframt kynna meginforsendur ákvörðunar sinnar á fundinum. „Sjálfstæðisflokkurinn er breiður flokkur með sterka lýðræðishefð og því eðlilegt að flokksmenn geti valið milli mismunandi kosta við kjör forystu. Þar á enginn að eiga neitt gefið“, segir í fundarboðinu frá Kristjáni Þór.
Kristján Þór atti kappi við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur á landsfundi Sjálfstæðisflokksins haustið 2005 en þá hafði Þorgerður betur, hlaut 62,3% í varaformannskjörinu en Kristján Þór hlaut 36,3% atkvæða. Af fundarboði Kristjáns nú verður ekki ráðið hvor hann hyggst aftur bjóða sig fram í varaformanninn þar sem Þorgerður Katrín er aftur í framboði eða í formanninn þar sem Bjarni Benediktsson hefur gefið kost á sér.