Flokkarnir semja um að helminga auglýsingakostnað

Frá Alþingi.
Frá Alþingi.

Stjórnmálaflokkarnir sem eiga fulltrúa á Alþingi, Framsóknarflokkurinn, Frjálslyndi flokkurinn, Samfylkingin, Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstrihreyfingin – grænt framboð hafa gert samkomulag um að takmarka auglýsingakostnað í aðdraganda alþingiskosninganna 25. apríl næstkomandi, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá flokkunum.
 
Samkomulagið felur í sér að flokkarnir skuldbinda sig til að takmarka kostnað við auglýsingabirtingar í dagblöðum, netfjölmiðlum og ljósvakamiðlum á landsvísu. Heildarkostnaður hvers flokks vegna auglýsingabirtinga í þessum fjölmiðlum verði ekki hærri en 14 milljónir króna. Samningur þessi gildir frá 30. mars 2009, þegar allir flokkar hafa lokið sínum landsfundum, til 26. apríl 2009. Jafnframt er samkomulag um að óháður aðili verði fenginn til að hafa eftirlit með framkvæmdinni.
 
Samkomulagið á rætur að rekja til laga um starfsemi stjórnmálaflokkanna sem samþykkt voru á Alþingi árið 2006. Þar var í fyrsta sinn tekið á fjármögnun stjórnmálaflokkanna með það fyrir augum að gera fjármál þeirra opinber og gegnsæ. Þar eru settar skorður við fjáröflun flokkanna meðal lögaðila og einstaklinga en ríkisframlög hækkuð til samræmis. Sambærilegt samkomulag var gert fyrir Alþingiskosningarnar 2007 en þá var hámarksfjárhæðin 28 milljónir króna. Stjórnmálaflokkarnir sem standa að samkomulaginu telja að nú þurfi að  koma enn frekari böndum á útgjöld vegna kosningabaráttunnar og því sé rétt að helminga upphæðina frá 2007, segir í tilkynningunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka