Sjálfstæðismenn kröfðust á Alþingi í dag skýringa á því hvernig Samfylkingin og Vinstrihreyfingin-grænt framboð ætluðu að starfa saman eftir alþingiskosningarnar í apríl í ljósi þess að flokkarnir hefðu gerólíka stefnu varðandi aðild að Evrópusambandinu.
Kölluðu þingmenn Sjálfstæðisflokks skýringar Samfylkingarmanna á ESB-ályktunum VG „skapandi túlkanir," og „kollhnísafréttaskýringar"
Birgir Ármannsson hóf umræðuna og sagði að á landsfundi VG um síðustu helgi hefði m.a. verið ályktað um það hvernig flokkurinn sér fyrir sér stjórnarsamstarf á næsta kjörtímabili. Skýrara pólitískt bónorð hefði raunar ekki komið fram lengi og fróðlegt væri að sjá hvernig Samfylkingin svaraði því bónorði á sínum landsfundi um næstu helgi.
Birgir sagði, að í ljósi skýrs vilja flokkanna tveggja um áframhaldandi samstarf eftir kosningarnar hljóti menn að velta því fyrir sér hvernig þeir ætluðu að nálgast Evrópumálin í ljósi þess að annar talaði til Brussel og hinn talaði sig burt frá Brussel. Samfylkingarmenn hefðu síðustu daga nokkuð reynt að túlka ályktanir VG um Evrópumál og ekki væri annað hægt en kalla það skapandi túlkanir þar sem mikið væri lesið í fá orð.
Vísaði Birgir m.a. til ummæla Björgvins G. Sigurðssonar í pistli á pressunni.is þar sem tekin væri sú afstaða, að brýnasta málið nú væri að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Steingrímur J. Sigfússon, formaður ur VG, hefði hins vegar sagt í vefsjónvarpi mbl.is í gær, að hættulegt væri að segja að menn ætluðu bara að ganga í Evrópusambandið, hölluðu sér síðan aftur og tækjust ekki á við vandamálin í íslensku samfélagi.
Spurði Birgir Björgvin hvort hann teldi að mikil opnun fælist í þessum orðum á ESB-aðild. Björgvin svaraði, að í landsfundarafgreiðslu VG hefði falist mikil opnun í Evrópumálum þegar talað væri um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu. Þessi afstaða markaði tímamót.
Björgvin sagði síðan, að Bjarni Benediktsson, formannsframbjóðandi Sjálfstæðisflokks, hefði í viðtali við Fréttablaðið sagt að upptaka evru og aðild að ESB væri betri kostur en króna og kollsteypa. Þess vegna væri undarlegt, að ekki væri minnst á Evrópusambandið einu orði í drögum að
landsfundarsamþykktum Sjálfstæðisflokks á sama tíma og endurreisnarnefnd
flokksins leggi til að sótt verði að aðild að ESB og myntbandalaginu.
Jón Bjarnason, þingmaður VG, áréttaði þau orð Steingríms, flokksformanns síns, að fást þyrfti við brýnni mál á næstunni en hugsanlega inngöngu í ESB. Sagði Jón að stefna VG væri skýr, sú að flokkurinn telji að Íslandi sé betur borgið utan Evrópusambandsins. Hins vegar myndi flokkurinn fara að meirihlutavilja þjóðarinnar.
Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði að það hljóti að vera önugt hlutskipti Vinstri grænna, að um leið og þeir hefðu samþykkt sínar áherslur á flokksþingi tækju þingmenn Samfylkingarinnar að sér hlutverk pólitískra fréttaskýrenda og útskýrðu fyrir þjóðinni hvað Vinstri grænir hafi meint. Þegar VG álykti að flokkurinn sé andvígur Evrópusambandinu komi Samfylkingin og túlki samþykktirnar þannig, að VG sé að opna leiðina inn í Evrópusambandið.
„Þetta er kollhnísafréttaskýring, sem hlýtur að slá öll met," sagði Einar og spurði hvort VG muni gera ESB-málið að úrslitaatriði eða hvort flokkurinn sé tilbúinn að semja um málið við Samfylkinguna í einhverju „skítabixi" eftir kosningar.