Vigdís: ASÍ leit á þátttöku í framboðinu sem uppsögn

Vigdís Hauksdóttir fyrrverandi lögfræðingur hjá Alþýðusambandi Íslands.
Vigdís Hauksdóttir fyrrverandi lögfræðingur hjá Alþýðusambandi Íslands. mbl.is

Vigdís Hauksdóttir, sem skipar 1. sæti Framsóknarflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður fyrir Alþingiskosningarnar, segir forseta ASÍ hafa tjáð sér að hún yrði að velja á milli starfs síns hjá sambandinu og framboðs vegna þess að litið yrði á þátttöku í framboði Framsóknarflokksins sem uppsögn.  

Gylfi sagði í morgun að það ætti ekki við nein rök að styðjast, að hann hefði viljað losna við Vigdísi úr starfi eða að flokkspólitík ætti þar einhvern hlut að máli. Sagðist Gylfi þvert á móti gjarnan hefði viljað njóta starfskrafta Vigdísar áfram, sem hafi staðið sig mjög vel í starfi fyrir ASÍ.

Í yfirlýsingu sem Vigdís sendi frá sér í kvöld segir:

„Þegar ljóst var að ég tæki fyrsta sæti á framboðslista Framsóknarflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður þá óskaði ég í símtali við Gylfa Arnbjörnsson forseta ASÍ, eftir launalausu leyfi sem lögfræðingur hjá Alþýðusambandi Íslands fram yfir kosningar. Forseti ASÍ tjáði mér að ég yrði að velja á milli starfs míns hjá sambandinu og framboðsins og því yrði litið á þessa þátttöku mína í framboði Framsóknarflokksins sem uppsögn af minni hálfu. Mér þótti þetta skjóta skökku við í ljósi þess að Gylfi hafði veitt öðrum starfsmanni launalaust leyfi á meðan hann væri í alþingisframboði fyrir Samfylkinguna jafnframt því sem fjöldamörg fordæmi eru fyrir því að fólk í verkalýðshreyfingunni hafi sinnt pólitískum störfum samhliða störfum hjá hreyfingunni. Fólki sem ég ræddi við eftir símtalið sá að mér var brugðið við þessi tíðindi.

Það var ánægjulegt að starfa fyrir verkalýðshreyfinguna og harma ég þessi málalok. Ég kveð samstarfsfólk mitt hjá ASÍ með söknuði. Mér leið vel þann stutta tíma sem ég vann þar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert