Aðeins einn ráðherra í ríkisstjórn Íslands tekur að sér launuð störf annað en ráðherrastarfið. Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra þiggur laun fyrir stöku námskeið eða fyrirlestra um bókmenntir. Þetta má lesa í upplýsingum sem birtar hafa verið um hagsmunatengsl ráðherra og trúnaðarstörf.
Með ákvörðun ríkisstjórnar frá 17. mars sl. var ákveðið að ráðherrar í ríkisstjórn Íslands skyldu gera almenningi grein fyrir fjárhagslegum hagsmunum sínum og trúnaðarstörfum sem þeir gegna í samræmi við reglur forsætisnefndar Alþingis um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum alþingismanna og trúnaðarstörfum utan þings frá 16. mars 2009. Óskaði forsætisráðherra í framhaldi eftir því að ráðherrar í ríkisstjórn Íslands sendu forsætisráðuneytinu upplýsingar um fjárhagslega hagsmuni sína og trúnaðarstörf sem þeir gegna.
Svör hafa nú borist forsætisráðuneytinu frá öllum ráðherrum í ríkisstjórn Íslands.
Eins og áður segir tekur einn ráðherra, Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra að sér stöku námskeið eða fyrirlestra um bókmenntir.
Enginn ráðherranna þiggur fjárhagslegan stuðning, gjafir eða boðsferðir og enginn ráðherranna hefur fengið eftirgjöf skulda. Þó nefnir Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra að hann hefur skrifstofuaðstöðu í Háskóla Íslands.
Tveir ráðherrar hafa gert samkomulag við vinnuveitendur sína, þau Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra og Ragna Árnadóttir, dóms- og kirkjumálaráðherra. Bæði eru í launalausu leyfi meðan þau gegna ráðherradómi.
Fjórir ráðherrar gegna stjórnarsetu eða öðrum trúnaðarstörfum fyrir hagsmunasamtök eða opinberar stofnanir.