Mistök gerð við einkavæðingu

Geir H. Haarde setur landsfund Sjálfstæðisflokksins.
Geir H. Haarde setur landsfund Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/ÁrnI Sæberg

Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í setningarræðu landsfundar flokksins nú síðdegis, að sjálfstæðismönnum hefði orðið á mikil mistök með því að falla frá stefnumótun um dreifða eignaraðild þegar bankarnir voru einkavæddir fyrir sex árum.

„Ég ber mína ábyrgð á því að svona var búið um hnútana á sínum tíma og á þeim mistökum er rétt að biðjast afsökunar. Geri ég það hér með. Sama er að segja um annað sem miður fór og var í okkar valdi og hefði mátt gera betur. En ég get ekki beðist afsökunar á afglöpum eða lögbrotum fyrirferðarmikilla manna í bönkum eða atvinnulífi sem fóru offari með mjög skaðlegum afleiðingum," sagði Geir.

Hann sagði, að sjálfstæðismönnum hefðu vissulega orðið á margs konar mistök við stjórn landsmála. Það  hefðu verið  mistök að fallast á kröfu framsóknarmanna um 90% húsnæðislán að loknum kosningunum 2003. Að
sama skapi megi gagnrýna tímasetningar skattalækkana á því kjörtímabili.

„En stærstu mistök okkar sjálfstæðismanna sem tengjast bankakerfinu og hruni þess voru gerð við einkavæðingu bankanna fyrir rúmlega sex árum. Með því að falla frá þeirri stefnumörkun sem ákveðin hafði verið um dreifða eignaraðild urðu okkur á mikil mistök. Þegar eigendur bankanna gerðust
umsvifamiklir í atvinnulífinu og eignatengsl milli viðskiptablokka urðu gríðarlega flókin og ógegnsæ var stöðugleika bankakerfisins ógnað. Hefðum við sjálfstæðismenn haldið fast við okkar upphaflega markmið um dreifða eignaraðild eru líkur á því að bankarnir hefðu ekki verið jafn sókndjarfir og áhættusæknir og raunin varð," sagði Geir.

Hann sagði að það breytti ekki öllu um ábyrgð sjálfstæðismanna á mistökum við einkavæðingu bankanna að eftirlit með óeðlilegum viðskiptaháttum og skaðlegum eignatengslum hefði verið á höndum annarra flokka frá árinu 1991.

„Það breytir heldur ekki öllu um ábyrgð okkar að aðrir flokkar gerðu lítið sem ekkert þegar Sjálfstæðisflokkurinn reyndi að sporna gegn óeðlilegum áhrifum auðhringja í íslensku samfélagi, og sumir þeirra lögðust reyndar á árarnar með stórfyrirtækjunum í þeim átökum. Það breytir heldur ekki öllu um okkar ábyrgð að við sömdum ekki þær leikreglur sem bankarnir og  önnur fyrirtæki fóru eftir heldur var okkur skylt að innleiða þær á grundvelli EES-samningsins. Við hefðum átt að standa öðruvísi að málum, vera gagnrýnni í hugsun, standa við okkar sannfæringu. Við verðum öll að draga lærdóm af mistökum fortíðarinnar og tryggja að öðruvísi verði staðið að málum í framtíðinni og ganga í þeim efnum hreint til verks," sagði Geir H. Haarde. 

Einkaframtak og virðing fyrir einstaklingum 

Hann sagði, að sjálfsstæðismenn þyrftu nú sem aldrei fyrr, að halda á lofti þeim sannindum að einkaframtak og virðing fyrir einstaklingnum er einmitt það sem þurfi  til þess að byggja upp á Íslandi. Því væri ekki að leyna að mjög er sótt að þessum hugmyndum og meðal þjóðarinnar hafi verið reynt að ala á vantrú á að einkaframtakið og markaðshagkerfið séu jafnáreiðanlegar stoðir og haldið hefur verið fram. Sumir héldu jafnvel að best sé að fela stjórnmálamönnum og embættismönnum  enn meira vald yfir atvinnulífinu. 

„Við þurfum nú að verja þá einföldu hugmynd, sem ég tel að allir sjálfstæðismenn og langflestir Íslendingar, eigi sameiginlega: þá hugmynd að sköpun nýrra verðmæta, úrvinnsla nýrra hugmynda og öflun nýrra tækifæra muni ekki eiga sér stað á kontórum ráðuneytanna, í bakherbergjum stjórnmálaflokkanna eða í nefndum þingmanna," sagði Geir.

Hann bætti við að fátt væri að sama skapi mikilvægara um þessar mundir, sama hvaða flokki menn tilheyrðu og  sama hvaða pólitísku hugsjón menn finni hugmyndum sínum farveg, að rísa nú upp úr pólitískum skotgröfum og sameinast um þau mál sem mestu skipta: Að tryggja hér til skamms tíma og langs öflugt atvinnulíf, blómlega búsetu og góð lífskjör í landinu.  „Svo hátt hljóta og verða stjórnmálin að rísa," sagði Geir.

Setningarræðan í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka