Samfylkingin brotnaði undan storminum

Gestir hlýða á ræðu Geirs H. Haarde í dag.
Gestir hlýða á ræðu Geirs H. Haarde í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýndi Samfylkinguna og núverandi ríkisstjórn harðlega í setningarræðu sinni á landsfundi sjálfstæðismanna nú síðdegis. 

„Þær aðstæður sem uppi voru hér á landi í kjölfar bankahrunsins eru einsdæmi í okkar sögu.Við Íslendingar stóðum ekki einungis frammi fyrir gríðarlegu efnahagslegu áfalli heldur stefndi heimurinn allur í mjög alvarlega efnahagslægð. Við slíkar aðstæður verður mörgum órótt og stoðir samfélagsins svigna undan því álagi sem hvílir á einstaklingum, fjölskyldum og fyrirtækjum í landinu. Undir þessu álagi stóðum við sjálfstæðismenn en á meðan við unnum að uppbyggingu þá beindi stór hluti Samfylkingarinnar kröftum sínum í innbyrðis sundrungu og taugaveiklun. Á endanum reyndist Samfylkingin vera sú kvísl sem fyrst brotnaði undan storminum," sagði Geir.

Hann sagði að stjórnarskiptin hefðu haft það í för með sér að dýrmætur tími hefur farið til spillis. Í janúar hefði Seðlabankinn talið óhætt að hefja vaxtalækkunarferlið á grundvelli ört lækkandi verðbólgu. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi hins vegar talið, að í ljósi stjórnmálaóvissunnar væri rétt að hinkra með vaxtalækkun.  Af þessum sökum hefði vaxtalækkunin um tvo mánuði. „Það er dýrkeypt seinkun," sagði Geir.

Hann sagði að einnig hefði tapast dýrmætur tími á Alþingi. „Samfylkingin missti móðinn þegar í haust og um áramót voru lykilaðilar innan hennar komnir með hugann við annað stjórnarmynstur. Því dróst að afgreiða ýmis mikilvæg frumvörp til að styðja við bakið á atvinnulífi og heimilum," sagði Geir,

Hann bætti við dýrmætum tíma hefði hins vegar verið sóað að undanförnu í umræður um breytingar á kosningalögum og svokallað persónukjör, eftir að utankjörstaðaatkvæðagreiðsla vegna þingkosninganna er hafin og prófkjör afstaðin. Þá hefði ríkisstjórnin með stuðningi Framsóknar ákveðið að verja tíma þingsins í að reyna að knýja fram breytingar á stjórnarskránni án þess að hafa leitað samstarfs um það við Sjálfstæðisflokkinn. Það væru fáheyrð vinnubrögð að hrista fram veigamiklar breytingar á stjórnarskránni á örfáum vikum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka