Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í setningarræðu sinni á landsfundi flokksins í dag, að þegar horft væri til baka væri það hans niðurstaða, að hyggilegast hefði verið að freista þess strax í
haust að mynda þjóðstjórn allra flokka.
„Hún hefði hugsanlega getað setið út veturinn, gert nauðsynlegar ráðstafanir í efnahags- og atvinnumálum og undirbúið þingkosningar. Vandinn var sá að Vinstri grænir, sem vildu komast í þjóðstjórn, vildu láta kjósa strax í nóvember og voru algjörlega á móti samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Samfylkingin var hins vegar á móti þjóðstjórn af ýmsum ástæðum og ég gaf þennan kost frá mér að vandlega athuguðu máli," sagði Geir í ræðunni.
Hann sagði að þau Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, hefðu undir lok síðasta árs átt ítarlegar viðræður um
möguleika á margs konar breytingum, m.a. á ríkisstjórninni. Geir sagði að sín hugmynd hefði verið sú að Ingibjörg yrði fjármálaráðherra samhliða annarri uppstokkun í stjórninni.
„Ein af hugmyndunum sem voru ræddar af minni hálfu á þessum tíma var hugsanleg sameining eða aukið samstarf Seðlabanka og Fjármálaeftirlits. Fékk ég kunnan innlendan hagfræðing til að skoða það mál, fulltrúar gjaldeyrissjóðsins voru beðnir um hugmyndir í því efni og beðið var álits hins finnska fjármálasérfræðings sem fenginn var hingað til lands á vegum ríkisstjórnarinnar. En þetta var ekki nóg fyrir Samfylkinguna sem var meira upptekin af þeim einstaklingum sem sátu í bankastjórn Seðlabankans en málefnalegum breytingum, eins og kom í ljós þegar minnihlutastjórnin nýja tók við völdum," sagði Geir.
Erfiðasta stundin í stjórnmálum
Geir sagði einnig í ræðu sinni, að á löngum ferli í stjórnmálum hefði hann staðið frammi fyrir mörgum erfiðum og þungbærum viðfangsefnum.
„Ávarp mitt til íslensku þjóðarinnar mánudaginn 6. október á liðnu hausti, þar sem ég gerði þjóðinni grein fyrir því að íslensku bankarnir væru í slíkum
háska að þeim yrði ekki bjargað, er vafalítið mín erfiðasta stund í stjórnmálum. Þótt aðdragandinn að falli bankanna hafi verið langur og erfið staða þeirra mjög til umfjöllunar mánuðum saman, var dauðastríð þeirra snarpt og áfallið fyrir íslensku þjóðina þungt," sagði Geir m.a.
Hann sagðist hafa verið þeirrar skoðunar um nokkurt skeið að nauðsynlegt væri að endurskoða peningastefnuna og umgjörð hennar. „Við þurfum að viðurkenna í fullri hreinskilni að peningamálastefnan sem fylgt var frá 2001 á grundvelli nýrra seðlabankalaga reyndist ekki vel eins og mál þróuðust í okkar litla en opna hagkerfi," sagði Geir.
Þeir sem hafa komið peningum undan hafa brugðist trausti þjóðarinnar
Hann sagði einnig, að bankarnir hefðu orðið fórnarlömb fjármálakreppu á heimsvísu. Þeir hefðu þó ekki verið saklaus fórnarlömb. Rangar ákvarðanir hefðu verið teknar og verulega skorti á að stjórnendur bankanna og margir aðrir forystumenn í viðskiptalífinu hefðu sýnt þá ábyrgð og varfærni sem gera verður kröfu um í starfsemi af þessu tagi.
„Árangurstengd ofurlaun, sem tíðkuðust í bönkum um allan heim, áttu sinn þátt í að stjórnendur tóku sífellt meiri áhættu. Við Íslendingar hljótum að bregðast við, eins og aðrar þjóðir eru nú að gera, og koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig. En það var fleira mjög ámælisvert í starfsemi bankanna og eigenda þeirra, sem hlýtur að kalla á breyttar reglur í framhaldinu. Nægir í þessu sambandi að nefna krosseignatengsl milli bankanna, misnotkun á eignarhaldsfélögum, lánveitingar til eigenda og æðstu stjórnenda, og töku veða í hlutabréfum í sjálfum sér eða hinum bönkunum. Þeir sem brutu lög og reglur eða hjálpuðu mönnum að koma peningum með óeðlilegum hætti undan skattlagningu á Íslandi hafa enga afsökun og eiga ekkert skjól. Skattar eru lágir á Íslandi miðað við sambærileg ríki og engum vorkunn að greiða þá. Þeir sem hafa svikist um að greiða þá og komið peningum undan til útlanda hafa illilega brugðist trausti þjóðarinnar. Öll þessi atriði eru nú til rannsóknar og af þeim þarf að draga réttan lærdóm þegar kemur að því að breyta reglunum."