Afstaða mótast af hræðslu

Landsfundargestir í Laugardalshöll.
Landsfundargestir í Laugardalshöll. mbl.is/Árni Sæberg

Benedikt Jóhannesson, ritstjóri Vísbendingar og forstjóri Talnakönnunar, sagði í umræðum um Evrópumál á landsfundi Sjálfstæðisflokksins að hætta væri á því að Sjálfstæðisflokkurinn splundraðist vegna afstöðunnar til Evrópumála.  

Ályktun flokksins um Evrópumál hefur verið kölluð „moðsuða“ af sumum landsfundarfulltrúum og einn landsfundarfulltrúi sagði að með ályktuninni væri farin „framsóknarleið.“ Ályktunin leggur til að gengið verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort hefja eigi viðræður við Evrópusambandið. Þær viðræður gætu tekið nokkur ár. Jafnframt segir í ályktuninni að Sjálfstæðisflokkurinn telji að aðild þjóni ekki hagsmunum íslensku þjóðarinnar.

Þjóðin gangi hnarreist til viðræðna
Benedikt sagði að færa mætti rök fyrir því að þjóðin ætti að ganga hnarreist til viðræðna. Við þyrftum öryggi í efnahagsmálum. Hann sagði að umræðan um Evrópumál í Sjálfstæðisflokknum væri ekki nægilega þroskuð, menn í Sjálfstæðisflokknum rugluðu saman hugtökum.

Kjartan Gunnarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, tók til máls og sagðist sammála Birni Bjarnasyni, alþingismanni, í öllum aðalatriðum um Evrópumál. Kjartan sagði að flokknum hefði gefist gæfa í 80 ár að ræða málefnin og taka svo afstöðu. Kjartan sagði að með ályktun landsfundar um Evrópumál væri staðfest sú stefna sem flokkurinn hefði haft í Evrópumálum hingað til.

Kjartan sagði að þegar að heimurinn hefði staðið upp úr þeirri „fjármálalegu kjarnorkustyrjöld“ sem geisaði væri sennilega breytt mynd í fjármálakerfum heimsins. Hann lagði áherslu á að flokkurinn hefði aldrei afsalað sér rétti til að skipta um skoðun í afstöðu sinni til málefna.

Björn Bjarnason gagnrýndi Breta harðlega í ávarpi sínu og þá  framkomu sem þeir hefðu sýnt okkur í haust og minnti á að Evrópusambandið hefði staðið með Bretum. „Við ættum ekki að leggjast á bónorðshné gagnvart Evrópusambandinu,“ sagði Björn. Hann sagði jafnframt að utanríkisráðherra í fyrrverandi ríkisstjórn (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) hefði reynt að „troða okkur í Evrópusambandið hvað sem tautaði og raulaði“. Hann gagnrýndi harðlega viðbrögð fyrrverandi ríkisstjórnar við því hvernig Bretar komu fram við íslensku þjóðina.
 

Horfa á aðild með opnum huga

Nokkrir landsfundarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins tóku undir orð Tómasar Más Sigurðssonar, forstjóra Alcoa Fjarðaáls, sem sagði að tvö af verðmætustu fyrirtækjum landsins væru hugsanlega á leið úr á landi og vísaði til starfsskilyrða fyrirtækjanna. Með orðum sínum vildi Tómas leggja áherslu á að landsfundargestir horfðu á aðild að Evrópusambandinu með opnum huga.

Jórunn Frímannsdóttir borgarfulltrúi sagðist telja að Evrópuályktunin væri málamiðlun.

Ragnhildur Helgadóttir, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, sagði að svo virtist sem afstaða margra fundarmanna mótaðist af hræðslu. „Þessa óskaplegu hræðslu við aðildarviðræður skil ég ekki,“ sagði Ragnhildur. Hún vísaði til þess að íslenska þjóðin hefði tækifæri til að taka afstöðu til álitaefna og reglna Evrópusambandsins með aðild.

Ragnhildur Helgadóttir, t.h., sagði að afstaða margra til Evrópusambandsins virtist …
Ragnhildur Helgadóttir, t.h., sagði að afstaða margra til Evrópusambandsins virtist mótast af hræðslu.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert