Nú er tækifærið fyrir Samfylkinguna að sýna að hún sé burðarflokkur í íslenskum stjórnmálum og sá frjálslyndi umbótaflokkur sem Íslendingar þurfum svo á að halda núna. Þetta sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður flokksins þegar hún setti landsfund Samfylkingarinnar í dag.
Sagði hún að Samfylkingin eigi að leita eftir umboði frá kjósendum til að verða áfram í forystu í ríkisstjórn eftir kosningar og leiða hin klassísku gildi jafnaðarstefnunnar til öndvegis í íslensku samfélagi.
„Meðal þeirra brýnu verkefna sem ný ríkisstjórn undir forystu jafnaðarmanna þarf að hrinda í framkvæmd er heildstæð sóknarstefna fyrir íslenskt atvinnulíf þar sem stefnan verður tekin á að því að Ísland verði komið í hóp tíu samkeppnishæfustu þjóða heims fyrir 2020. Um leið verður að fylgja metnaðarfullri félagslegri jafnaðarstefnu, sem hefur það að markmiði að tryggja að allir landsmenn hafi lágmarksframfærslu," sagði Ingibjörg Sólrún þegar hún setti landsfund flokksins.
Ingibjörg Sólrún sagði, að þessum markmiðum verði erfitt að ná og halda meðan Íslendingar búi við þær sveiflur sem fylgi krónunni. Þess vegna verði ekki lengur undan því vikist að marka nýja peningamálastefnu með samningum við Evrópusambandið.
„Strax í upphafi aðildarviðræðna er hægt að leita samvinnu við ESB um aðgerðir til að auðvelda afnám gjaldeyrishafta og styðja við verðmyndun krónunnar. Ég hef á undanförnum mánuðum rætt stöðu Íslands ítarlega í einkasamtölum við utanríkisráðherra helstu ríkja Evrópusambandsins og hef skynjað ríkan áhuga á aðild okkar. Þrátt fyrir allt þá er lag núna," sagði Ingibjörg.
Hún sagði mörg og erfið úrlausnarefni bíða nýrrar ríkisstjórnar. Í erli dagsins mætti þó ekki gleymast að líklega er mikilvægasta verkefnið að veita þjóðinni siðferðilega forystu í uppgjörinu við kunningjakapítalismann og peningahyggjuna.
„Það er hlutverk Samfylkingarinnar að tryggja að réttlætiskrafa jafnaðarstefnunnar nái fram að ganga, að byrðunum sé jafnt skipt og þeir borgi sem það geta en hinir fái stuðning sem þess þurfa. Enfremur er það hlutverk Samfylkingarinnar að veita forystu nýrri lýðræðismenningu sem gerir opnun og gegnsæi, skýrar leikreglur og virðingu fyrir almannahagsmunum að daglegum veruleika almennings á Íslandi. Nú þarf að beita ríkisvaldinu í almannaþágu."