Aðrir flokkar án peningastefnu

Anna Pála Sverrisdóttir og Aðalsteinn Kjartansson á landsfundi Samfylkingarinnar.
Anna Pála Sverrisdóttir og Aðalsteinn Kjartansson á landsfundi Samfylkingarinnar.

Samfylkingin þarf að ná betur til ungs fólks, brottflutningur þeirra frá Íslandi má ekki verða. Þetta kom fram í máli ungra jafnaðarmanna á landsfundi í dag. Evrópumálin er sérstaða Samfylkingarinnar, hún er þannig eini flokkurinn með peningastefnu. Í ESB liggja gríðarleg sóknarfæri. Þetta sagði Ásgeir Runólfsson, ungur jafnaðarmaður.

Ásgeir benti á að ungir Íslendingar standa frammi fyrir miklum vanda, þeir eru einn skuldsettasti þjóðfélagshópurinn og atvinnuleysi er mest meðal þeirra. Margir þeirra íhuga alvarlega brottflutning til útlanda, enda á ungt fólk jafnan auðveldara með að hefja nýtt í öðru landi. Undir það tók Lísbet  Harðardóttir. Hún sagði ennfremur að aðeins með evrunni myndum við losna undna oki verðtryggingar. 

Evrópmálin snúast þó um meira en evruna að mati ungra jafnaðarmanna. Þau vilja því tengja Evrópumálin við alla málaflokka. Þar má nefna lýðræðis- og jafnréttismál eins og Guðrún Birna le Sage de Fontenay sagði. Guðrún Birna gaf Samfylkingunni appelsínugula spjaldið til að minna fundargesti á búsáhaldabyltinguna.

Fjölbreyttir námsmöguleikar í gegnum ESB

Aðalsteinn Kjartansson sagði Samfylkinguna verða að beita sér í alvöru fyrir bættum kjörum námsmanna, svo sem með hækkun námslána. Hann gaf Samfylkingunni gula spjaldið fyrir skort á aðgerðum í þeim efnum. Evrópusambandið væri líka leið til fjölbreyttari námsmöguleika, sem ætti að vera baráttumál ungs fólks.

Ungir jafnaðarmenn vilja að sett séu markmið um kolefnisfríar samgöngur og sjávarútveg. Markmið af því tagi myndu hvetja ungt og vel menntað fólk til að búa hér áfram þrátt fyrir nokkra erfiðleika og draga til landsins erlent rannsóknarfé og þekkingu.

Anna Pála Sverrisdóttir talaði fyrir græna hagkerfinu og fyrir því að Íslandi yrði sköpuð sérstaða á því sviði. Loftslagsmálin mættu ekki verða útundan. Hún er óánægð með vandræðagang flokksins í málefnum álvera og gaf flokknum græna spjaldið af því tilefni. Þá bauð hún Íslandshreyfinguna velkomna í flokkinn.

Samfylkingin fékk einnig bleika spjaldið frá ungum jafnaðarmönnum þar sem aðeins ein kona leiðir framboðslista flokksins fyrir komandi kosningar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka