Áhersla á jafnréttismál

Dagur B. Eggertsson
Dagur B. Eggertsson mbl.is/Ómar

Nýr varaformaður Samfylkingarinnar verður kjörinn síðar í dag. Árni Páll Árnason og Dagur B. Eggertsson kynntu framboð sín á landsfundi nú fyrir skömmu. Í ræðum sínum lögðu þeir báðir áherslu á jafnréttismál.

Árni Páll vísaði til Bríetar Bjarnhéðinsdóttur og sagði það hlutverk flokksins að gefa réttlausu fólki rétt. Auk aðgerða til hjálpar heimilunum yrði líka að tala um réttindamál. Samfylkingin yrði að blása kjarki í fólk til að þora að taka áhættu, sem væri nauðsynleg til að skapa ný störf.

„Tækifærið bíður. Þúsundir manna þrá að kjósa eitthvað annað en Sjálfstæðisflokkinn.“ 

Dagur talaði um mikilvægi sveitarfélaganna sem halda utan um grunnþjónustuna. Varaformaður þyrfti að styðja flokksstarfið í öllum byggðarlögum.

„Samfylkingin stendur á tímamótum. Það er horft til okkar um lausnir og eftir réttlæti.“  Jafnaðarstefnan væri eina hugmyndakerfið sem stæði eftir. Það kæmi í hlut jafnaðarmanna að draga úr óréttlætinu í kerfinu, hvort sem það snýr að úthlutun aflaheimilda, launamisrétti eða ójöfnuði.

Innra starf flokksins mikilvægt sem aldrei fyrr

Ágúst Ólafur fráfarandi varaformaður sagði mjög mikilvægt að halda vel um innra starf flokksins og koma í veg fyrir gjá milli forystu og grasrótar.

„Nú er mjög mikilvægt að starf flokksins sé lifandi og aðlaðandi, þegar vantraust ríkir í garð stjórnmála. Þennan þátt má ekki vanta.“

Ágúst Ólafur þakkaði fyrir samfylgd flokksmanna og sagði aldrei að vita hvort hann kæmi aftur því taugarnar til flokksins væru sterkar.

Árni Páll Árnason
Árni Páll Árnason mbl.is/Ómar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert