Guðmundur Halldórsson frá Bolungarvík, fyrrverandi formaður Eldingar, félags smábátaeigenda á Vestfjörðum, gagnrýndi tilvist kvótakerfisins harðlega er hann ávarpaði landsfund Sjálfstæðisflokksins rétt í þessu í umræðum um sjávarútvegsmál. Hann sagði að sjálfstæðismenn hefðu kokgleypt við hugmyndum krata um kvótakerfi á sínum tíma. „Köld eru krataráð,“ sagði Guðmundur. Hann sagði að kvótakerfinu væri að blæða út. Flest útgerðarfyrirtækin væru ofur skuldsett.
„Kvótakerfið er krabbamein sjávarútvegsins. Krabbameinið er komið á það stig að það er ólæknandi, burt með meinið, burt með kvótakerfið,“ sagði hann.
„Eignabólan var mynduð með kvóta. Þetta var enn eitt undrið, að hækka verð á kvóta og búa til eignabólu,“ sagði Viðar Helgi Guðjohnsen. Aðrir landsfundarfulltrúar slógu hugmyndir Guðmundar út af borðinu.
Einar Sigurðsson sagði að verið væri að gera lítið úr starfi starfshópa landsfundar með því að bera upp efnislegar tillögur til breytinga á landsfundi í stað þess að taka slaginn í nefndunum.
Gísli Halldórsson gaf lítið fyrir orð Einars og sagði að fegurð landsfundar fælist einmitt í því að taka mál upp á fundinum sjálfum þó þau hefðu verið drepin í nefnd.
Drög að ályktunum landsfundar um sjávarútvegsmál.