Tekjuháir færa sig um set

Í nýrri könnun Gallup fyrir Morgunblaðið og RÚV á fylgi við stjórnmálaflokka er áberandi mun minna fylgi lágtekju- og millitekjufólks við Sjálfstæðisflokkinn en í öðrum tekjuhópum. Hið sama má segja um Framsóknarflokkinn en dreifingin er jafnari eftir tekjuhópum í stuðningi við aðra flokka.

Ef litið er á niðurstöður fyrri kannanna Gallup sést að fylgi hátekjufólks hefur í auknum mæli færst frá Sjálfstæðisflokknum yfir í aðra flokka, einkum Samfylkinguna.

Í könnun Gallup fyrir þremur vikum sögðust 42,6% þeirra sem eru með meira en 800 þúsund krónur í fjölskyldutekjur ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Viku síðar fór hlutfallið niður í 39,3% og núna er hlutfallið í 33,5%. Á sama tíma hefur fylgi þessa tekjuhóps við Samfylkinguna farið úr 25% vikuna 4. til 10. mars í 31% í könnuninni nú, sem gerð var dagana 18. til 25. mars. Þess bera að geta að á þessum þremur vikum hefur fylgi við Sjálfstæðisflokkinn minnkað en fylgi Samfylkingarinnar lítið breyst.

Aðeins er marktækur munur milli tekjuhópa í fylgi við tvo flokka, þ.e. Framsóknarflokk og Sjálfstæðisflokk. Minnst er fylgi þeirra sem ætla að kjósa Framsókn sem eru með 550 til 799 þúsund krónur í fjölskyldutekjur á mánuði, eða 7,2%, á meðan flestir stuðningsmenn flokksins eru í tekjuhópnum 250 til 399 þúsund krónur (20,2%).

Tekjulægstir kjósa VG

Mest fylgi hafa Vinstri grænir meðal þeirra tekjulægstu, eða 33,5%, og 30,7% meðal tekjuhópsins með 550-799 þúsund kr. mánaðartekjur á heimilinu. Í þeim hópi sögðust flestir ætla að kjósa Samfylkinguna, eða 37,4%.

Einar Mar Þórðarson stjórnmálafræðingur segir sjálfstæðismenn jafnan hafa haft yfirburðafylgi meðal hátekjufólks en könnunin gefi vísbendingar um að það sé eitthvað að breytast. Erfitt sé þó að fullyrða meira þar sem könnun Gallup sýni aðeins fjölskyldutekjur, ekki tekjur einstaklinga.

Karlar að yfirgefa Sjálfstæðisflokkinn

Könnunin nú sýnir að álíka margir karlar og konur ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn, eða um 24% hjá hvoru kyni fyrir sig. Í síðustu könnun voru hlutföllin 32% hjá körlum og 21% hjá konum.

Einar bendir á að fylgi Vinstri grænna og Samfylkingarinnar meðal kvenna hafi minnkað, um leið og fleiri karlar segjast ætla að kjósa þessa flokka en áður. „Fylgisaukning VG í síðustu kosningum um fimm prósent kom aðallega frá konum en núna er tiltölulega lítill munur á kynjunum hjá þeim flokki,“ segir Einar en 28% kvenna ætla að kjósa VG og 25% karla.

Könnun Gallup sýnir marktækan mun á fylgi við þrjár flokka eftir kyni svarenda. Mun fleiri karlar en konur segjast ætla að kjósa Framsókn og Borgarahreyfinguna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert