„Ef það er eitthvað eitt umfram annað sem ég vil að við tökum með okkur út af þessum fundi þá er það von,“ sagði Bjarni Benediktsson, í framboðsræðu sinni á landsfundi, en hann er í framboði til formanns flokksins. „Von um að flokkurinn nái vopnum sínum á ný, þjóðinni til heilla“, sagði Bjarni.
Hann sagði að hamast hefði verið á flokknum. Sagt að flokkurinn hefði brugðist, sagt að sjálfstæðisstefnan hefði svikið. „Við skulum ekki stja undir slíku tali lengur,“ sagði Bjarni. Hann sagði að það væri fásinna að halda því fram að sjálfsstæðisstefnan hefði orsakað hrunið.
Bjarni vék að kaflaskilum í íslensku samfélagi. Hann sagði brýnt að flokkurinn svaraði kalli tímans. Komið væri að kynslóðaskiptum. „Við virðum og þökkum fyrrverandi formönnum. Á þessum fundi hljótum við að þakka Geir H. Haarde alveg sérstaklega,“ sagði Bjarni og salurinn tók undir.
„Nýr formaður verður í einstakri stöðu. Enginn stjórnmálaflokkur á Íslandi býr að jafnmiklum mannauði og Sjálfstæðisflokkurinn. Hér inni er þverskurður þjóðarinnar. Hið mikla verk formanns er að virkja þennan kraft og beina honum í einn farveg.“
Bjarni sagðist hafa fengið tækifæri til þess að hitta sjálfstæðismenn víða um landið. Það hefði eflt hann í þeirri trú að styrkurinn fælist í þróttmiklu starfi hverfafélaga og aðildarfélaga Sjálfstæðisflokksins um land allt.
Óásættanlegt að ekki betri árangur hafi náðst í jafnréttismálum
„Ég er af kynslóð sem er alin upp við það stelpur og strákar fái jöfn tækifæri. Það er framandi og óásættanlegt að starfa í umhverfi þar sem konur og karlar standa ekki jafnfætis. Þessu verðum við að breyta, það er krafa minnar kynslóðar,“ sagði Bjarni og salurinn tók undir með lófaklappi. Bjarni vék að erfiðleikum flokksins meðal ungra kjósenda. Hann sagði að flokkurinn yrði að virkja samtöl við ungt fólk og veita ungu fólki brautargengi innan flokksins. Bjarni minntist á lítið traust. Traust á viðskiptalífinu hefði aldrei verið jafn lítið. „Frelsi og ábyrgð eru tvær hliðar á sama peningnum.“ Hann sagði það dapurlegt að fólk sem hefði sýnt ráðdeild skuli þurfa að taka á sig höggið í þeim erfiðleikum sem ganga yfir þjóðina. „Það er öllum misboðið,“ sagði Bjarni.
Bjarni vitnaði til orða Ólafs Thors um að „getan ætti alltaf að fylgja götu heiðarleikans.“ Bjarni sagði að frelsi án ábyrgðar og að frelsi á ábyrgð annarra heyrði sögunni til. Sátt næðist ekki nema þeir sem hefðu brotið af sér yrðu látnir svara fyrir gjörðir sínar.
Bjarni sagði að horfast þyrfti í augu við að framundan væri risavaxið verkefni í ríkisfjármálum. Hann sagði að eignaumsýslufélag ríkisins kynni að vera neyðarúrræði, en í höndum vinstrimanna væri það stórhættuleg hugmynd. „Reynslan kennir okkur það sama og öðrum þjóðum, að ef ríkið verður of fyrirferðamikið þrengir það að einstaklingunum,“ sagði Bjarni. „Hver trúir því að Steingrímur J muni mæla fyrir einkavæðingu, það hljómar eins og lélegur brandari,“ sagði Bjarni. Hann vísaði til þess að Steingrímur hefði greitt atkvæði gegn frjálsu útvarpi á sínum tíma og að Jóhanna Sigurðardóttir hefði setið hjá.
Hann sagði að skapa þyrfti atvinnulífinu heilbrigt rekstrarumhverfi. Hann sagði að vafalaust þyrftu einhver fyrirtæki á sértækum aðgerðum að halda. Mestur væri vandi lítilla og meðalstórra fyrirtækja, hann sagði að ef rekstur þessara fyrirtæki myndi stöðvast hefði það ófyrirséðar afleiðingar í för með sér.
„Hver dagur með háum stýrivöxtum er vondur dagur fyrir íslensku þjóðina,“ sagði Bjarni. Lækka þyrfti stýrivexti og endurreisa bankakerfið.
Bjarni sagði að háir skattar væru gamaldags pólitík sem hefði fyrir löngu runnið sitt skeið. Hann sagði að viðreisnin þyrfti að hefjast nú þegar. Hann sagðist ætla að berjast af fullum mætti fyrir hag heimilanna og fyrirtækjanna í landinu. „Þetta er mitt loforð, ég er keppnismaður og ég geng út á völlinn til þess að hafa sigur,“ sagði Bjarni. Hann sagði að Evrópusambandsaðild væri ekki brýnasta verkefni stjórnmálanna í dag.
Samfylkingin hefði einstakt lag á að tefla fram málum sem hefðu enga þýðingu fyrir þann vanda sem blasir við. Hann vísaði til þess að Samfylkingin hefði hótað stjórnarslitum við Sjálfstæðisflokkinn ef ekki yrði gengið til aðildarviðræðna. Bjarni sagði að líklega yrði annað upp á teningnum núna. Bjarni vék að mikilvægi þess að menn stæðu saman.
„Fámenn þjóð í harðbýlu landi þarf að standa saman. Hagsmunir okkar eru sameiginlegir,“ sagði Bjarni. Bjarni sagðist hafa unnið af heilindum og sagðist hafa lagt sig fram um að standa sig vel. Hann sagði gagnrýni á sig persónulega og sinn uppvöxt hefði ekki farið framhjá sér. Hann sló hins vegar á létta strengi. „Silfurskeiðin er ekki bara ofan í munni heldur langt ofan í koki,“ sagði Bjarni og salurinn hló. „Ég hef gaman af svona skotum og kveinka mér ekki af þeim. Þaðan af síður tel ég að ég þurfi að biðjast afsökunar á uppruna mínum og ætterni,“ sagði Bjarni og salurinn tók undir með lófaklappi.
„Ég hef fyrir löngu ákveðið að helga mig hugmyndum Sjálfstæðisstefnunnar,“ sagði Bjarni. Bjarni sagði að sín kynslóð hefði notið forréttinda, menntakerfi í sókn og æ betri lífskjör. Hann sagði það skyldu sinnar kynslóðar að bjóða fram krafta sína í þágu samfélagsins. „Við höfum verk að vinna, verkefnið framundan er í senn einfalt og erfitt. Við samherja mína segi ég, ekki leggja árar í bát, ekki missa vonina. Við höfum ekki efni á því að missa neinn liðsmann í þeirri baráttu (sem er framundan),“ sagði Bjarni. Hann sagði að hrinda þyrfti sókn þeirra sem teldu að lausnin fælist í því að fleygja frelsinu. Við göngum sameinuð til verks með sterka og samhenta liðsheild. Hann sagði að forystan þyrfti að tala skýrt og setja mál sitt fram einum rómi.
Við sjálfstæðismenn ætlum að byggja á trúnaði og trausti. Hér eftir sem hingað til munum við ganga hreint til verks, sagði Bjarni og fékk standandi lófaklapp landsfundarfulltrúa að ræðu lokinni.