Nýrri kynslóð treyst til verks

Bjarni Benediktsson ávarpar landsfundinn eftir að hann var kjörinn formaður.
Bjarni Benediktsson ávarpar landsfundinn eftir að hann var kjörinn formaður. mbl.is/Ómar

Bjarni Benediktsson, nýr formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í ávarpi á landsfundi flokksins að sjálfstæðismenn hefðu svarað kalli um breytingar og nýrri kynslóð hefði verið treyst til verks. Bjarni var kjörinn formaður á fundinum og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir var endurkjörin varaformaður.

„Þetta hefur verið merkilegur fundur. Flest höfum við vafalaust viljað halda upp á 80 ára afmæli flokksins okkar við aðrar aðstæður en þær sem nú eru uppi,“ sagði Bjarni. „Í þessum kaflaskilum í lífi þjóðarinnar höfum við nú svarað kallinu um breytingar og tekið við að skrifa nýjan kafla í sögu flokksins okkar.“  

„Ég heiti því að gefa allt sem ég á til að standa undir því trausti sem þið hafið sýnt mér. Þakka ykkur kærlega fyrir það,“ sagði Bjarni og salurinn tók undir með dynjandi lófaklappi. „Ég vil ítreka þakkir til mótframbjóðanda míns fyrir snarpa og góða kosningabaráttu sem var honum til mikils sóma,“ sagði Bjarni um Kristján Þór Júlíusson. Hann óskaði einnig Þorgerði Katrínu til hamingju með glæsilegt endurkjör, en hún náði  yfirburða kosningu í embætti varaformanns með 80,6% greiddra atkvæða.   

Bjarni Benediktsson er 39 ára gamall. Hann er lögfræðingur að mennt en hefur verið alþingismaður frá árinu 2003.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir er 43 ára gömul. Hún er lögfræðimenntuð og hefur verið alþingismaður frá árinu 1999 og varaformaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 2005.

Skýr sýn til framtíðar
Bjarni sagði að sameiginlegt verkefni allra á næstu vikum væri að endurheimta það traust sem Sjálfstæðisflokkurinn hefði alltaf notið meðal landsmanna. Hann sagði að flokksmenn gætu verið stoltir. „Enginn annar flokkur hefur komist nálægt því að komast í jafn hispurslausa naflaskoðun og flokkurinn hefur gert,“ sagði Bjarni og nefndi sérstaklega skýrslu Endurreisnarnefndar. „Það er ekki sársaukalaust að fara í uppgjör af þessum toga og lykilmenn í flokknum, okkar besta fólk, er ósammála um ýmis atriði og lætur í sér heyra. Við gerum ekkert til að reyna að fela þann ágreining. Við tökumst heiðarlega á inni fundinum og höfum svo þroska til að snúa bökum saman og styðja sem einn maður þá stefnu sem hér er mörkuð,“ sagði Bjarni og vildi þar að því er virtist reyna að lægja öldurnar milli Vilhjálms Egilssonar og Davíðs Oddsonar, en Davíð gagnrýndi niðurstöður Endurreisnarnefndar flokksins harðlega í ræðu sinni í gær.  


„Við höfum mótað skýra sýn til framtíðar, leitt ýmis ágreiningsmál farsællega til lykta og sameinast um fjölmargar hugmyndir og áherslur sem við vitum að munu skipta sköpum fyrir fólkið í landinu,“ sagði Bjarni.

Auðmjúk og upplitsdjörf
„Við erum auðmjúk og upplitsdjörf, stolt en umfram allt sókndjörf.“ Hann sagði að til þess að Ísland gæti snúið vörn í sókn þyrfti Sjálfstæðisflokkurinn að snúa vörn í sókn. Bjarni sagði að fleiri landsmenn stæðu nú höllum fæti. Þess vegna hlytu kosningarnar að snúast um velferð fjölskyldunnar. Hann sagði að sjá þyrfti til þess að þeim færi fækkandi sem stæðu höllum fæti. Hann sagði að aðrir flokkar hefðu reynt að slá eign sinni á hugtakið velferð.  Hann sagði að þeim flokkum hefði iðulega verið efst í huga að auka útgjöld ríkissjóðs.

Hann sagði að stærsta velferðarmálið fyrir þessar kosningar væri að hjól atvinnulífsins kæmust á hreyfingu. Hann sagði að það gerðist ekki ef hér á landi yrðu áfram við völd stjórnmálaflokkar sem litu á fyrirtæki landsins sem vasa til að seilast „dýpra og dýpra ofan í.“ Hjól atvinnulífsins kæmust ekki á hreyfingu ef hér yrðu við völd flokkar sem vildu hækka skatta. Hann sagði að hjólin kæmust ekki á hreyfingu ef landinu yrði stjórnað af þeim sem „líta á það sem brýnasta verkefni okkar og algjört forgangsmál, að við afsölum okkur forræði yfir fiskimiðunum,“ sagði Bjarni og var þar að vísa til Samfylkingarinnar.

Gagnrýndi Samfylkinguna
Bjarni gagnrýndi Samfylkinguna harðlega í ræðu sinni án þess að nefna flokkinn á nafn. Hann sagði að hjólin færu heldur ekki að snúast ef hér væru við völd stjórnmálaflokkar sem í „stefnuleysi láta berast fram og til baka með síbreytilegum straumum dægurumræðunnar, vegna þess að helsta stefnumál þeirra er að koma vel út í skoðanakönnunum,“ sagði Bjarni og salurinn tók undir með lófaklappi.

Hann sagði að endurreisn atvinnulífsins, þetta stærsta velferðarmál samtímans næði þá og því aðeins fram að ganga ef sá stjórnmálaflokkur fengi brautargengi, sem alla tíð hefði skilið og borið virðingu fyrir þeirri staðreynd að „órjúfanleg tengsl“ væru á milli öflugs atvinnulífs og velferðar fólksins í landinu. „Sá flokkur er Sjálfstæðisflokkurinn," sagði Bjarni.

Geir vann af heiðarleika í þágu þjóðarinnar
Bjarni þakkaði Geir H. Haarde sérstaklega fyrir góð störf. Hann hefði ekki aðeins verið leiðtogi heldur náinn vinur þúsunda sjálfstæðismanna um allt land. „Því gleymum við ekki, frekar en einlægri og heiðarlegri þjónustu í þágu íslensku þjóðarinnar,“ sagði Bjarni. Því næst bað hann landsfundargesti að rísa úr sætum og hylla Geir. Var Geir því hylltur með dynjandi lófaklappi og leiddi Bjarni uppklapp þar sem landsfundarfulltrúar klöppuðu í takt til að sýna Geir virðingu.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert