Aldrei fleiri á landsfundi Sjálfstæðisflokksins

Fjölmennur landsfundur sjálfstæðismanna.
Fjölmennur landsfundur sjálfstæðismanna. Júlíus Sigurjónsson

Aldrei hafa fleiri tekið þátt í lands­fundi Sjálf­stæðis­flokks­ins en tæp­lega 2.000 manns voru á fund­in­um þegar flest var, að því er fram kem­ur í til­kynn­ingu frá Sjálf­stæðis­flokkn­um. Í for­manns­kosn­ingu tóku þátt 1.705 manns og hafa aldrei fleiri greitt at­kvæði í henni.

Bjarni Bene­dikts­son er nýr formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins. Hann var kos­inn með 990 at­kvæðu eða 58,1% at­kvæða. Þor­gerður Katrín Gunn­ars­dótt­ir var end­ur­kjör­in vara­formaður flokks­ins með 80,6% greiddra at­kvæða. Frá­far­andi for­manni flokks­ins, Geir H. Haar­de, voru þökkuð góð störf og var hann kvadd­ur með inni­legu, langvar­andi lófa­taki.

Fyr­ir utan stjórn­mála­álykt­un samþykkti lands­fund­ur álykt­an­ir í 15 mála­flokk­um. Þær marka stefnu flokks­ins í kom­andi kosn­ing­um og fram til næsta lands­fund­ar flokks­ins.

Nokk­ur mik­il­væg atriði í álykt­un­inni eru m.a. þessi: 

  • Ljúka end­ur­skipu­lagn­ingu fjár­mála­kerf­is­ins inn­an þriggja mánaða.
  • Af­nema hið fyrsta höft á gjald­eyrisviðskipti.
  • Koma í veg fyr­ir að miðstýr­ing og rík­i­s­væðing verði að ríkj­andi skip­an. Slík of­stjórn gref­ur und­an at­hafna­frelsi þjóðar­inn­ar og þar með hag­sæld henn­ar.
  • Hafna öll­um nýj­um skött­um á at­vinnu­lífið og ein­stak­linga.
  • Skapa sátt um nýt­ingu auðlinda okk­ar og hefja þegar upp­bygg­ingu orku­frekra at­vinnu­greina. Lögð er áhersla á að ekki verði skilið í sund­ur á milli vernd­ar og nýt­ing­ar nátt­úru­auðlinda lands­ins.
  • Ráðast í tíma­bundn­ar breyt­ing­ar á skatt­kerf­inu sem hvetja til nýráðninga og þró­un­ar­starfs.

Til að verja heim­il­in er lagt til að

  • Íbúðar­eig­end­ur muni geta lækkað greiðslu­byrði sína um allt að helm­ing í þrjú ár og fram­lengt láns­tím­ann á móti.
  • Stefnt verði að því að í boði verði óverðtryggð lán og mögu­leik­ar á að breyta verðtryggðum lán­um í óverðtryggð, þegar verðbólga og vext­ir eru kom­in í viðun­andi horf.
  • Öllum hug­mynd­um rík­is­stjórn­ar­inn­ar um há- og milli­tekju­skatt er hafnað.
  • Stýri­vext­ir Seðlabanka Íslands lækki og verði 5-6% und­ir lok þessa árs.
  • Rík­is­sjóður verður að vera rek­inn með ábyrg­um hætti. Ekki verður hjá því kom­ist að draga veru­lega úr rík­is­út­gjöld­um. Í þeim nauðsyn­lega niður­skurði sem framund­an er mun Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn taka til­lit til hags­muna þeirra sem mest eiga und­ir högg að sækja svo sem ör­yrkja, líf­eyr­isþega og efnam­inni fjöl­skyldna. Grunnþjón­usta vel­ferðar- og mennta­kerf­is­ins má ekki skaðast.


Frelsi og ábyrgð verða alltaf að fylgj­ast að og á grund­velli þessa ætl­ar Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn að:

  • Læra af reynsl­unni og byggja meðal ann­ars á því upp­gjöri  sem hef­ur farið fram í end­ur­reisn­ar­nefnd sjálf­stæðismanna.
  • Beita sér fyr­ir því að tryggðir séu næg­ir fjár­mun­ir og heim­ild­ir fyr­ir þá sem ann­ast rann­sókn­ir á or­sök­um banka­hruns­ins þannig að ör­uggt sé að þeir sem hafa brotið lög séu sótt­ir til saka og látn­ir taka af­leiðing­um gjörða sinna.
  • Setja lög um þjóðar­at­kvæðagreiðslur. 
  • Verja sjálf­stæði þjóðar­inn­ar og  tryggja yf­ir­ráð yfir auðlind­um Íslands. Niðurstaða úr hugs­an­leg­um viðræðum við Evr­ópu­sam­bandið skal bor­in und­ir þjóðina.


Álykt­un­in í heild má lesa á heimasíðu Sjálf­stæðis­flokks­ins, www.xd.is.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert