„Ég var ekki tilbúinn til þess að reka fólk og sagði henni að framkvæmdastjórnin væri ekki tilbúin í slíkar aðgerðir,“ sagði Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins í Zetunni á mbl.is um brotthvarf Ásgerðar Jónu Flosadóttur úr embætti varaformanns eftir aðeins átta daga setu.
Guðjón Arnar sagði Ásgerði Jónu hafa viljað gera breytingar í starfsmannahaldi Frjálslynda flokksins í kjölfar þess að hún var kjörin varaformaður flokksins. Guðjón Arnar sagðist hafa tilkynnt henni að hann vildi nýta krafta þess fólks sem vildi vinna fyrir flokkinn.
„Morguninn eftir fæ ég tölvupóst frá henni þar sem hún segir skilið við flokkinn og ég hef ekki heyrt í henni síðan,“ sagði Guðjón Arnar.