Dagur B. Eggertsson borgarfulltrúi var kjörinn nýr varaformaður Samfylkingarinnar á laugardag. Hann sigraði þar Árna Pál Árnason, leiðtoga á lista í Suðvesturkjördæmi. Viðmælendur Morgunblaðsins á landsfundinum höfðu talið báða koma afar sterklega til greina og mikil spenna ríkti þegar úrslitin voru kynnt.
Dagur, sem fékk um tvo þriðju atkvæða, sagði málefni sveitarfélaga lengi hafa verið Samfylkingunni hugleikin. Sem varaformaður og borgarfulltrúi myndi hann efla tengslin á milli ríkis og sveitarfélaga og auka á breiddina innan flokksforystunnar. Ólíkt mörgum borgarfulltrúum stefnir Dagur eindregið á Reykjavík í næstu borgarstjórnarkosningum.
„Ruglið í Reykjavík sem Sjálfstæðisflokkurinn bauð upp á er á einhvern hátt eins og undanfari þess að ljóst var að það er ekki sjálfsagt að menn ráði við erfið mál í pólitík. Stóra verkefnið núna er að endurreisa traust á stjórnmálum og stofnunum samfélagsins.“