Ekki hörð frjálshyggja

„Við erum ekki að fara að horfa á harða frjálshyggju og að mínu áliti höfum við ekki verið að upplifa harða frjálshyggju hér,“ sagði Bjarni Benediktsson, nýkjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins í Zetunni á mbl.is þegar hann var spurður um áherslubreytingar með nýrri kynslóð í forystu flokksins.

Bjarni sagði flokkinn fylgjandi jöfnum aðgangi að velferðarkerfi landsmanna.

„Þegar við tókum ákvörðun um það síðustu 15 árin að stórauka framlög til menntamála af almannafé, stórauka framlög til heilbrigðismála af almannafé, gera betur við eldri borgara og öryrkja í gegnum velferðarkerfið, við höfum stóraukið útgjöld í gegnum almannatryggingakerfið með auknum tilfærslum, og við höfum verið að stórauka útgjöld líka til samgangna í landinu. Allt eru þetta útgjaldaflokkar sem eru greiddir af sameiginlegum sjóðum þjóðarinnar og í engu tilviki er farið fram á það að menn þurfi að koma með sérstakt framlag af sínu eigin ráðstöfunarfé“ sagði Bjarni Benediktsson.

Hann sagði að ýkt frjálshyggjustefna myndi ganga út á að menn ættu ekki greiðan aðgang að menntakerfinu án þess að greiða skólagjöld. Frjálshyggjustefnan myndi einnig ganga út á það að menn þyrftu að kaupa sínar eigin sjúkratryggingar.

„Við erum fyrir jafnan aðgang að menntakerfinu og við viljum jafnan aðgang að heilbrigðiskerfinu,“ sagði Bjarni Benediktsson, nýkjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins.

Bjarni sagði að tilslakanir í eftirliti og regluverki fyrir viðskiptalífið hefðu verið mistök en þær eru gagnrýndar í skýrslu endurreisnarnefndar Sjálfstæðisflokksins. Bjarni sagðist þeirrar skoðunar að tækifærin yrðu best nýtt ef kraftar einstaklinganna fengju notið sín. Markvisst hefði verið dregið úr völdum stjórnmálamanna með því að færa alls konar rekstur og starfsemi úr höndum ríkisins yfir til einkaaðilanna en regluverkið yrði að vera í lagi.

„Og það er rétt að regluverkið sem fylgdi einkavæðingu bankanna var ekki nægilega traust. Við hefðum átt að leggja miklu ríkari áherslu á dreift eignarhald og síðan var það þannig með eftirlitsstofnanirnar eins og til dæmis Fjármálaeftirlitið, að því óx ekki fiskur um hrygg í neinu samræmi við vöxt bankakerfisins. Og auðvitað voru það mistök að láta bankakerfið vaxa svona hratt, langt umfram getu okkar til þess að styðja við það og í raun og veru á ábyrgð alls almennings í landinu ef að illa skyldi fara, það voru mistök, alveg skýr og klár mistök. Við höfðum reyndar orðað áhyggjur okkar af því töluvert löngu fyrir hrunið en við því var ekki brugðist í tæka tíð.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert