Krefjast persónukjörs

Þráinn Bertelsson leiðir lista Borgarahreyfingarinnar í Reykjavík norður.
Þráinn Bertelsson leiðir lista Borgarahreyfingarinnar í Reykjavík norður. mbl.is/Ásdís

Borgarahreyfingin kynnti stefnuskrá sína á fundi með blaðamönnum í dag og kynnti um leið lista flokksins í Reykjavík. Þráinn Bertelsson rithöfundur er í fyrsta sæti í Reykjavík norður og Birgitta Jónsdóttir skáld efst í Reykjavík suður. Í öðru sæti í Reykjavík norður er Katrín Snæhólm Baldursdóttir listakona og Baldvin Jónsson námsmaður er annar í Reykjavík suður.

Ein helsta krafa Borgarahreyfingarinnar er að fá að stilla upp óröðuðum listum frambjóðenda í öllum kjördæmum landsins í þingkosningunum 25. apríl nk. Krefst hreyfingin þess að ríkisstjórnin standi við gefin loforð um að leggja frumvarp um persónukjör fram fyrir þinglok.

Borgarahreyfingin hefur lokið við að stilla upp framboðslistum í Reykjavíkurkjördæmum og er komin vel á veg með að manna framboðslista í öðrum kjördæmum. Aðferðin sem hreyfingin notar við að raða fólki á lista er sú að hægt er að skrá sig í framboð á vefnum www.xo.is. Hægt er að sækjast eftir ákveðnu sæti í ákveðnu kjördæmi. Kosningastjóri kallar saman alla sem hafa óskað eftir að komast á lista til fundar í tölvupósti og þar er kynnt tillaga að lista miðað við þær óskir sem hafa komið fram. Ef  tveir eða fleiri sækjast eftir sama sætinu, skulu þau reyna að finna málamiðlun sín á milli, eins og segir í tilkynningu Borgarahreyfingarinnar. Ef ekki tekst að komast að niðurstöðu er dregið á milli frambjóðenda um hver hlýtur sætið. Hin færast í næsta sæti og svo koll af kolli þar til listin er fullmannaður.

Tveir vilja leiða í Kraganum

Þannig hafa tveir gefið kost á sér í 1. sæti listans í Suðvesturkjördæmi, þeir Þór Saari og Valgeir Skagfjörð. Gunnar Sigurðsson, sem var fundarstjóri á borgarafundunum fyrr í vetur, vill leiða listann í Norðvesturkjördæmi og Herbert Sveinbjörnsson gefur kost á sér í forystusætið í Norðausturkjördæmi. Ekki er vitað hver mun leiða listann fyrir hreyfinguna í Suðurkjördæmi.

Kjörstjórn hefur vald til að hafna frambjóðendum, ef vafi leikur á um hæfi frambjóðenda, með tilliti til heilsufars, fortíðar og orðspors, eins og það er orðað í fréttatilkynningu. Þá þarf 2/3 atkvæða til að hafna viðkomandi aðila á framboðslista X-O.

Stefnuskrá Borgarahreyfingarinnar er hægt að kynna sér á www.xo.is

Frá stofnfundi Borgarahreyfingarinnar fyrr í vetur.
Frá stofnfundi Borgarahreyfingarinnar fyrr í vetur. mbl.is/Ómar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert