Þorgerður Katrín ræðumaður landsfundar

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, ásamt nýkjörnum formanni flokksins, Bjarna …
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, ásamt nýkjörnum formanni flokksins, Bjarna Benediktssyni. mbl.is/Ómar

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, var ræðumaður landsfundar flokksins að mati Málfundafélagsins Óðins, félags launþega í Sjálfstæðisflokknum. Davíð Oddsson varð í öðru sæti og Kristján Þór Júlíusson í því þriðja.

Málfundafélagið Óðinn var stofnað 29. mars 1938. Frá stofnun hefur eitt helsta hlutverk félagsins verið að skipuleggja baráttu sjálfstæðismanna í verkalýðshreyfingunni í Reykjavík en félagið var einnig samstarfs- og samkomuvettvangur launamanna. Félagið hefur frá upphafi lagt áherslu á ræður og ræðumennsku.

Að þessu sinni stóð félagið fyrir vali á ræðumanni landsfundar, en þetta er í fyrsta sinn sem slíkt val fer fram. Með valinu er ætlunin að vekja athygli á ræðumennsku og hvetja fulltrúa landsfundar til að vanda til við ræðuhöld. Allir sem tóku til máls í aðalræðupúlti fundarins voru í kjöri.

Alls fengu yfir 20 einstaklingar atkvæði í kjörinu en Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir fékk flest atkvæði. Meðal umsagna sem ræða Þorgerðar fékk var að hún hefði verið kraftmikil, heiðarleg, vel skrifuð og að hún hefði náð vel til áhorfendanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert