Borgarahreyfingin hefur óskað eftir því að fá úthlutað úr styrktarsjóði sem ætlaður er til stjórnmálaflokka. Óskar Borgarahreyfingin eftir því í bréfi sem hún hefur sent til framkvæmdarstjóra og þingflokksformanna flokkanna sem nú sitja á Alþingi, að fá úthlutaðar 300 þúsund krónur úr sjóðnum.
„Við hjá Borgarahreyfingunni – þjóðin á þing höfum orðið vör við að þinn ágæti flokkur deilir að hluta til með okkur einlægri ósk um lýðræðisumbætur á Íslandi.
Þótt okkur greini ef til vill á um hversu langt þarf að ganga í þeim málum þá hljótum við að gleðjast yfir hverjum þeim sem tekur undir þær óskir með okkur.
Eins og ykkur má vera ljóst standa ýmsar hindranir í vegi nýrra framboða sem hafa áhuga á að kanna með kosningum hvort þjóðin vilji njóta krafta þeirra til að starfa á Alþingi og halda jafnvel að þau geti látið eitthvað gott til að láta af sér leiða á þeim vettvangi.
Borgarahreyfingin – þjóðin á þing ætlar að bjóða fram í öllum kjördæmum og við teljum svo sem ekkert eftir okkur að leggja á okkur þá vinnu sem þarf, en það er verra að byrja með tóma buddu.
Þá komum við að 370 milljóna króna styrktarsjóði þeim sem ætlaður er til skiptanna á milli stjórnmálaflokka.
Einhvern veginn hefur það æxlast svo að þessari stóru upphæð er skipt á milli þingflokkanna í samræmi við fylgi en ný framboð ekki fengið krónu af þessum styrk Nú þegar lýðræðisumbætur eru stóra málið í samfélaginu er þessi ólýðræðislega skipting á styrk þessum í æpandi mótsögn við þær umbætur sem við viljum öll sjá í samfélaginu.
Þess vegna fer Borgarahreyfingin – þjóðin á þing fram á það við ykkur að þið látið af hendi rakna nokkrar krónur af ykkar hluta.
Við erum nægjusöm og ætlumst ekki til þess að fá stóran hluta af ykkar skerf. 300 þúsund króna þakið sem er á styrkjum úr samfélaginu er góð regla og sú upphæð sem við teljum sanngjarnt að miða við þegar tekið er fyrsta skrefið að sanngjarnari úthlutun," að því er segir í bréfinu.