Fréttaskýring: Verðtryggingin burt

Sérstakar aðgerðir vegna fjárhagsvanda heimilanna eru nokkuð fyrirferðarmiklar í kosningaáherslum flokkanna, að vísu misjafnlega umfangsmiklar.

Aðstæður eftir bankahrunið kalla fram fjölmargar tillögur um hvernig bregðast á við og í fljótu bragði er töluverður samhljómur milli flestra flokka um hvað gera skuli, eins og með greiðsluaðlögun, frystingu lána og lækkun vaxta.

Fyrir þingkosningarnar 2007 var landslagið allt annað, m.a. talað um Ísland sem land tækifæranna á landsfundi Sjálfstæðisflokksins en félagshyggjuflokkarnir lýstu áhyggjum af aukinni skuldabyrði heimilanna. Ekki þótti ástæða til að grípa til sértækra aðgerða.

Hafi skuldirnar þótt miklar á þeim tíma, fyrir aðeins tveimur árum, þá eru þær enn hærri í dag. Vandinn er gríðarlegur og nefndar hafa verið tölur um skuldir heimilanna allt frá 1.400 milljörðum króna til tvö þúsund milljarða króna. Verðtryggð lán hafa hækkað um allt að 30% á einu ári og á sama tíma hefur verðmæti fasteigna minnkað verulega. Fjölmargar fjölskyldur eru orðnar skuldum vafnar og á leið í gjaldþrot.

Núverandi ríkisstjórn reynir hvað hún getur og nýju frumvarpi um greiðsluaðlögun er ætlað að koma til móts við þá sem verst eru staddir. Betur má ef duga skal.

Tillaga Framsóknar umdeild

Mikið hefur verið rætt um þá tillögu Framsóknarflokksins að fella niður 20% af öllum skuldum vegna íbúðalána. Flokkurinn var fyrstur til að kynna sértækar aðgerðir til að bregðast við fjárhagsvanda heimila og fyrirtækja, er skýrsla var lögð fram í febrúar sl. Tillagan um 20% niðurfellingu skulda hefur verið umdeild og margir talið hana óraunhæfa og ekki sé jafnræðis gætt meðal allra skuldara. Þó hefur tillagan hlotið hljómgrunn í öðrum flokkum, eins og hjá Tryggva Þór Herbertssyni, sem er í 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki gengið svo langt og í ályktun landsfundarins um fjárhag heimilanna er meira fjallað um almennar aðgerðir. Ekki er þar minnst berum orðum á afnám verðtryggingar en lagt til að hægt verði að breyta verðtryggðum lánum í óverðtryggð. Bjarni Benediktsson lét hafa eftir sér fyrir landsfundinn að hann ætlaði að beita sér fyrir afnámi verðtryggingarinnar. Það skyldi þá ekki fara svo að þetta fyrirbæri hyrfi af sjónarsviðinu eftir kosningar? Kjósendur munu vafalítið fylgjast náið með því.

Í hnotskurn

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert