Framsóknarmenn vilja að vextir verði lækkaðir sem allra fyrst, að höfuðstóll húsnæðislána og lána fyrirtækja verði lækkaður um 20%, með hugsanlegu hámarki og afskriftir erlendra kröfuhafa renni þannig til íslenskra skuldara. Þetta er meðal áhersluatriða í kosningastefnuskrá Framsóknarflokksins sem kynnt var í dag.
Efstu menn á listum Framsóknarflokksins um land allt kynntu í dag kosningastefnuskrá flokksins fyrir alþingiskosningarnar 25. apríl næstkomandi, um leið og kosningamiðstöð flokksins að Borgartúni var opnuð.
Vaxtalækkun og 20% niðurfærsla skulda
Meðal þess sem framsóknarmenn setja á oddinn í kosningabaráttunni er að skjóta styrkari stoðum undir efnahag þjóðarinnar til að reisa heimili og fyrirtæki við á nýjan leik. Þeir segja að lausnirnar verði að vera varanlegar, skapa stöðugleika, tryggja öflugt atvinnulíf og einstaklingum og fjölskyldum örugga þjónustu. Framsóknarmenn vilja í þeim tilgangi m.a. að vextir verði lækkaðir sem allra fyrst, að höfuðstóll húsnæðislána og lána fyrirtækja verði lækkaður um 20%, með hugsanlegu hámarki, og afskriftir erlendra kröfuhafa renni þannig til íslenskra skuldara.
Eignir auðmanna erlendis haldlagðar
Þá vilja þeir grípa til sérstakra ráðstafana með greiðsluaðlögun í tilviki þeirra skuldara sem enn verða í vanda. Þá vill flokkurinn koma gjaldmiðilsmálum þjóðarinnar í varanlega höfn og afnema gjaldeyrishöft sem fyrst, með samningum við erlenda krónueigendur og íslenska lífeyrissjóði. Framsóknarmenn vilja einnig koma rekstri bankanna í eðlilegt horf, semja um aðkomu kröfuhafa að þeim og selja hlut í þeim þegar skapast hefur markaður með hlutabréf, ásamt því að koma höndum á óskattlagðar eignir íslenskra auðmanna erlendis.
Barist gegn atvinnuleysi
Framsóknarflokkurinn telur brýnt að grípa til aðgerða sem tryggja heilbrigð og eðlileg rekstrarskilyrði fyrirtækja. Aðeins með því móti sé hægt að draga úr því atvinnuleysi sem eykst hér dag frá degi. Lagt er til sérstakt átak til að bæta samgöngur og fjarskipti, flýta mannaflsfrekum framkvæmdum og veita fyrirtækjum skattaafslátt vegna rannsókna- og þróunarstarfs.
Framsóknarmenn vilja bæta rekstrarumhverfi minni fyrirtækja, fjölskyldurekstrar og einyrkja. Þá leggur flokkurinn áherslu á að nýta náttúruauðlindir í anda sjálfbærrar þróunar og efla grunnrannsóknir á íslenskri náttúru. Þeir vilja að áfram verði byggt á skynsamlegri nýtingu vatns- og jarðhitaorku og rannsóknir á djúpborunum studdar enn frekar.
Framsóknarmenn vilja efla og hlúa að matvælaframleiðslu þjóðarinnar í landbúnaði og sjávarútvegi sem bæði skapa gjaldeyristekjur og spara gjaldeyri.
Skilyrt ESB-aðild
Þá vilja framsóknarmenn að í samræmi við ályktun flokksþings verði skorið úr um það með aðildarviðræðum hvort Ísland eigi heima í ESB. Skilyrði verði sett fyrir mögulegri inngöngu, í samræmi við ályktanir síðasta flokksþings framsóknarmanna, sem lúta m.a. að yfirráðum yfir auðlindum og hagsmunum íslensks landbúnaðar. Þjóðin hafi lokaorðið um þessa stóru ákvörðun og eigi að greiða atkvæði um hugsanlegan samning.
Á sviðum velferðarmála vilja Framsóknarmenn að staðinn verði vörður um velferðina með ráðum og dáð. Sparnaður í velferðarkerfinu verði því að einkennast af samráði, fagmennsku og eins mikilli sátt og mögulegt er. Framsóknarmenn vilja að mótuð verði velferðarstefna Íslands sem taki mið af fyrirsjáanlegum breytingum í aldurssamsetningu þjóðarinnar og hafi að leiðarljósi að standa vörð um kjör þeirra sem minna mega sín á samdráttartímum.
Stjórnlagaþing og ný stjórnarskrá
Framsóknarflokkurinn setur það á oddinn að Íslendingar setji lýðveldinu nýja stjórnarskrá. Stjórnskipun Íslands verði endurskoðuð á sérstöku stjórnlagaþingi þar sem stjórnarskrá Íslands og eftir ástæðum viðeigandi lög um stjórnsýslu, dómstóla, löggjafarstarf og kosningar verði endurskoðuð til samræmis við framsæknar hugmyndir um stjórnskipun landsins um gagnsæi, lýðræðislega þátttöku og jafnvægi milli valdþátta. Stjórnarskráin þurfi að tryggja sjálfstæði Alþingis og setja framkvæmdavaldinu skorður.