Guðrún María Óskarsdóttir, aðstoðarmaður Grétars Mar Jónssonar hefur sagt sig úr Frjálslynda flokknum. Hún hefur gegnt fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn en hefur sagt sig frá þeim.
Guðrún María Óskarsdóttir gaf kost á sér til formennsku í Frjálslynda flokknum á landsþingi á dögunum en dró svo framboð sitt til baka áður en að kosningum kom. Jafnframt lýsti hún yfir stuðningi við Ásgerði Jónu Flosadóttur, sem gaf kost á sér til varaformennsku og var kjörin en sagði skilið við flokkinn átta dögum síðar.
Guðrún María segir í yfirlýsingu að ástæða úrsagnarinnar sé ólýðræðisleg vinnubrögð sem hún sjálf hafi mátt meðtaka sérstaklega. Engar frekari skýringar eru gefnar þar um.
Guðrún María Óskarsdóttir segir jafnframt úr stjórn Landssambands kvenna í Frjálslynda flokknum, úr stjórn kjördæmafélags Suðvesturkjördæmis og frá trúnaðarstörfum Frjálslynda flokksins í Hafnarfirði.