Enn er allt óljóst um þinglok; þingforseti bindur vonir við að þingi ljúki fyrir páska, en þingflokksformaður Samfylkingar segir meiri líkur en minni á áframhaldandi þingstörfum eftir páskana. Formaður Sjálfstæðisflokksins vill engu spá um framhaldið næstu daga.
Þingmenn sátu á löngum og ströngum fundum fram á nætur í síðustu viku. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins fluttu þá margar og langar ræður meðan þingmenn stjórnarflokkanna létu lítið fyrir sér fara í aðalmálinu, þar sem málflutningur sjálfstæðismanna fer gegn stjórnskipunarfrumvarpi ríkisstjórnarinnar.
Sjálfstæðismenn telja marga annmarka á málinu og málsmeðferðinni og vilja helzt fá það af dagskrá þingsins. Slíkt hefur Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagt ekki koma til greina, enda stjórnlagaþingið, sem er hluti frumvarpsins, eitt af skilyrðum Framsóknarflokksins fyrir hlífiskildi hans yfir ríkisstjórninni. Eins og staðan var í vikulokin var samkomulag ekki í augsýn og þinglok fyrir páska ólíkleg.
Guðbjartur Hannesson, forseti Alþingis, segir, að forsætisnefnd þingsins komi saman á mánudagsmorgun og síðan er fundur með þingflokksformönnunum um dagskrá Alþingis.
Guðbjartur segist þrátt fyrir allt binda vonir við að þinghaldinu ljúki fyrir páska. Það sé hins vegar ekki gefið að svo geti orðið, en ef menn ganga til samkomulags í dag, ættu þrír dagar að duga að hans mati.
Þegar Guðbjartur var spurður hvernig hann mæti stöðuna á því að þinglok verði fyrir páska, sagðist hann telja helmingslíkur þar á.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.