Hjón, tvö börn og tilsjónarmaður

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

„Ef fram heldur sem horfir verður íslenska vísitölufjölskyldan hjón, tvö börn og tilsjónarmaður,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, á hádegisfundi með framsóknarmönnum á Húsavík í dag. Hann sagði stöðu í efnahagsmálum alvarlega og brýnt væri að bregðast við.

Með Sigmundi á fundinum var efsta fólk á lista Framsóknarflokksins í norðausturkjördæmi, fyrir utan Birki Jón Jónsson sem var upptekinn við þingstörf. Höskuldur Þór Þórhallsson, Huld Aðalbjarnardóttir og Sigfús Karlsson tóku til máls og stöppuðu stálinu í sitt fólk. Lýstu þau því yfir að ekki væri annað hægt en að „gefa Sjálfstæðisflokknum frí“ frá ríkisstjórnarsamstarfi að loknum kosningum í vor.

Framsókn verður að vera með

Sigmundur Davíð sagði það nauðsynlegt að Framsóknflokkurinn ætti aðild að ríkisstjórn að loknum kosningum. Það sem íslensk þjóðin þyrfti til þess að ná árangri væri „sterkt miðjuafl“ sem yrði leiðarvísir út úr kreppunni. „Framsóknarflokkurinn, og þær áherslur sem hann stendur fyrir, eru sá leiðarvísir sem þjóðin þarf á að halda að loknum kosningum,“ sagði Sigmundur Davíð í upphafi fundar þar sem hann fór yfir svið stjórnmálanna. Hann sagðist ekki hafa góða tilfinningu fyrir Samfylkingin og Vinstri græn mynduðu einir flokka vinstri stjórn að loknum kosningum. „Ég hef ekki trú á því að íslenska þjóðin vilji að hér myndist hrein vinstri stjórn að loknum kosningum,“ sagði Sigmundur Davíð. Framsóknarflokkurinn yrði að eiga aðild að ríkisstjórn með þeim, ef vel ætti að fara.

Sjálfstæðisflokkurinn eins og óþægt barn

Höskuldur Þór Þórhallsson, þingmaður flokksins í norðausturkjördæmi, sagði það vera merkilegt fyrir íslenska þjóð að upplifa það þegar Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir málþófi. „Ég á börn og stundum er það svo, að þau eru ósátt við eitthvað og arga þá og garga og vilja fá allt sem þau vilja. Málþófið sem Sjálfstæðisflokkurinn er að bjóða upp á í þinginu er af svipuðum toga. Flokkurinn þolir ekki að hann fái ekki það sem hann vill. Huld sagði mér frá því áðan, að það væri hollt húsráð að leyfa börnum að arga aðeins og garga ef þau vilja fá allt sem þau vilja. Ég held að það sama eigi við um Sjálfstæðisflokkinn í umræðunum um stjórnarskrána,“ sagði Höskuldur Þór og flokksmenn hlógu við.

Möguleikinn á kerfishruni eykst dag frá degi

Sigmundur Davíð eyddi nokkrum tíma í að útskýra efnahagstillögur flokksins, og þá helst tillögu um 20 prósent niðurfellingu skulda heimila og fyrirtækja. Sagði hann það vera misskilning, að ríkissjóður þyrfti að borga fyrir þessa niðurfellingu. Niðurfelling upp á þúsundir milljarða væri að eiga sér stað, með uppbyggingu nýrra banka á grunni innlendrar starfsemi þeirra sem nú væru fallnir, og það væri réttlætismál að niðurfellingin skilaði sér beint til þeirra sem nú væru að „rembast við að borga af lánunum sínum“.

Þá sagði hann greiðsluaðlögunartillögur ríkisstjórnar í sjálfu sér betra en ekkert, en þær væru einfaldlega ekki nógu „afgerandi“. Hugmyndin um að einn tilsjónarmaður væri með hverri fjölskyldu, til þess að aðstoða við fjármál heimilisins, væri ekki það sem þörf væri á. „Ýmsir hafa stigið fram og sagt tillögur okkar of róttækar. Það er ekki rétt. Það sem er róttækt í þessu öllu saman, er að leyfa fólkinu í landinu, og fyrirtækjunum, að fá ekki  hlutdeild í stórfelldri niðurfellingu á skuldum. Sérstaklega er það mikilvægt við þær erfiðu aðstæður sem nú eru uppi. Allt er þetta hugsað til þess að fólk og fyrirtæki geti haldið áfram að borga reikningana sína. Ef staða mála verður þannig, að fólk hættir að geta borgað þá verður kerfishrun í landinu, með gríðarlegri lækkun fasteignaverðs sem mun að lokum skilja fólk eftir í skuldafjötrum. Það þarf að koma í veg fyrir að sú staða myndist,“ sagði Sigmundur Davíð á fundinum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka