Fréttaskýring: Með krónuna utan ESB

Umræða um Evrópu- og alþjóðamál er kannski ekki eins fyrirferðarmikil og vænta mátti fyrir komandi þingkosningar. Hefði bankahrunið ekki komið til væri þetta líkast til aðalmálið í kosningunum og hvort taka ætti upp evruna. Þess í stað er endurreisn bankakerfisins og velferð heimila og fyrirtækja í öndvegi kosningabaráttunnar, sem verður stutt en snörp eftir páskana.

Ef undan er skilin Samfylkingin setja flokkarnir Evrópumálin ekki fremst á oddinn en þó virðist sem aukið fylgi sé innan flokkanna við að kanna með viðræðum hvað sé í boði hjá Evrópusambandinu og færa niðurstöðu þeirra viðræðna undir þjóðaratkvæðagreiðslu. Meðal Vinstri grænna hefur þetta verið nefnt sem kostur, ekki síst innan raða ungliða í þeim flokki. Hvort látið verði reyna á þetta ræðst sennilega af úrslitum kosninganna.

Eftir sem áður er nokkur samhljómur meðal Sjálfstæðisflokks, VG og Frjálslynda flokksins í Evrópumálum, sem telja að hagsmunum Íslands sé best borgið utan ESB. Framsóknarmenn ályktuðu fyrr í vetur á flokksþingi sínu að hefja ætti viðræður um ESB-aðild og bera niðurstöðuna undir þjóðaratkvæði. Fyrir viðræðunum eru þó sett ýmis skilyrði þannig að flokkurinn stígur ekki jafn hröðum skrefum í átt til Evrópu og Samfylkingin, sem vill hefja viðræðurnar án tafar og mikilla takmarkana. Athyglisvert verður að sjá hvernig sá flokkur semur við Vinstri græna ef núverandi stjórnarflokkum tekst að ná meirihluta eftir kosningarnar 25. apríl næstkomandi.

Borgarahreyfingin er ekki með Evrópu- eða alþjóðamál ofarlega á sinni stefnuskrá, að öðru leyti en því að gefið er undir fótinn með að taka upp annan gjaldmiðil í bandalagi við aðrar þjóðir.

Svo virðist sem aðrir flokkar séu sammála um að krónan sé gjaldmiðill þjóðarinnar næstu misserin, að við séum ekki í standi til að taka upp aðra mynt fyrr en að kreppu lokinni. Engin önnur mynt en evran er nefnd á nafn og t.d. hvergi að sjá dollara eða norsku krónuna á blaði í stefnuskrám og áherslum flokkanna. Umræða um einhliða upptöku evru hefur aftur skotið upp kollinum í kjölfar skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um bága stöðu Mið- og Austur-Evrópuríkja en fullyrt var á Alþingi í gær að engar slíkar viðræður hefðu átt sér stað við sjóðinn af hálfu íslenskra stjórnvalda.

Áfram samstarf við NATO

Í áherslum í alþjóða- og öryggismálum er aukið samstarf við NATO og nágrannaríki á norðurslóðum áberandi hjá Sjálfstæðisflokknum, Framsóknarflokknum og Samfylkingunni. Frjálslyndir eru varfærnari og Vinstri grænir vilja nýjar áherslur á þessu sviði, þar sem sjónum Íslands verði beint æ frekar að friðar- og umhverfismálum á alþjóðavettvangi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert