Fréttaskýring: Krafa um aukið lýðræði

mbl.is/Júlíus

Eftir yfirferð yfir stefnuskrár flokkanna um stjórnarskrána og lýðræðisumbætur kunna deilur á Alþingi um stjórnarskrárfrumvarp ríkisstjórnarinnar að koma einhverjum á óvart. Krafa um aukið lýðræði er uppi eftir bankahrunið og flokkarnir eru greinilega, hver á sinn hátt, að svara því kalli.

Allir flokkar sem bjóða til þings hafa endurskoðun á stjórnarskrá íslenska lýðveldisins á sinni stefnuskrá. Flokkunum ber saman um að breytingar á stjórnarskrá verði að bera undir þjóðaratkvæði og setja beri lög um slíkar atkvæðagreiðslur. Flestir nefna að styrkja skuli þrískiptingu valdsins og hafa skýrari skil á milli löggjafarvalds og framkvæmdavalds, m.a. með því að ráðherrar gegni ekki þingmennsku.

Þegar betur er að gáð og rýnt m.a. í stjórnarskrárfrumvarpið og athugasemdir sjálfstæðismanna við það, kemur ágreiningur um leiðir að sama marki betur í ljós. Aðeins Sjálfstæðisflokkur nefnir ekki stjórnlagaþing á nafn í sinni ályktun af landsfundi og hafa þingmenn flokksins bent á að Alþingi sé að afsala valdi sínu sem stjórnarskrárgjafa til stjórnlagaþings. Einnig skorti á lagalega og pólitíska ábyrgð stjórnlagaþings, skýra þurfi betur hvaða mál séu borin undir þjóðaratkvæði og lágmark um að 15% kjósenda geti farið fram á atkvæðagreiðslu sé of lágt. Þá er málsmeðferðin harðlega gagnrýnd og áhersla verið lögð á að víðtæk sátt skapist á Alþingi um allar breytingar á stjórnarskránni. Miðað við framgang málsins á Alþingi síðustu daga virðist allt benda til að deilur um stjórnarskrána, sem ekki eru nýjar af nálinni, haldi áfram um sinn og verði ekki útkljáðar fyrir þessar kosningar.

Afkvæmi búsáhaldabyltingar

En frá karpinu á þingi að sjálfum stefnuskrám flokkanna. Þær eru sem fyrr segir keimlíkari en ætla mætti fyrirfram, þó að finna megi mismunandi áherslur. Aukin þátttaka almennings í ákvarðanatöku er eitthvað sem allir flokkar virðast geta skrifað upp á. Einn flokkur (sem reyndar vill ekki láta kalla sig flokk) er í raun stofnaður utan um þau málefni sem hér eru til umfjöllunar. Við erum að tala um Borgarahreyfinguna, sem er skilgetið afkvæmi búsáhaldabyltingarinnar, eins og Þráinn Bertelsson frambjóðandi orðaði það. Hefur hreyfingin eina meginreglu; að færa völdin frá flokksræði til lýðræðis. Slagorðin „þjóðin á þing“ hafa hins vegar ekki náð til fólksins enn, ef marka má skoðanakannanir, hvað sem upp úr kjörkössunum kemur.
Í hnotskurn
» Listinn til hliðar er ekki tæmandi hjá sumum flokkum, eins og hjá Borgarahreyfingunni.
» Fjallað verður um áherslur flokkanna í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum í blaðinu á morgun. Umfjöllunin verður svo tekin saman í páskablaði Morgunblaðsins.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka