Störf verða ekki til á skrifstofum stjórnmálaflokka

Steingrímur. J. Sigfússon.
Steingrímur. J. Sigfússon. mbl.is/Golli

Sextán til átján þúsund störf þurfa að verða til á næstu árum eigi að takast að vinna gegn atvinnuleysi. Að mati Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs koma þrengingarnar nú ekki í veg fyrir tækifæri til fjölgunar starfa á næstu árum, þótt einungis lítill hluti þeirra nýju starfa sem nauðsynleg séu verði til hjá hinu opinbera.

„Störf eru ekki framleidd á skrifstofum stjórnmálaflokka. Þau þurfa að verða til," segir Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og formaður Vinstri grænna, er hann kynnti hugmyndir flokksins um það hvernig störf geti orðið til með stefnumótun og stuðningi stjórnvalda. „Auðvitað erum við að tala hér um hluti sem þarf að stuðla að að gerist."

Í greinargerðinni er farið yfir atvinnulífið og nýsköpunartækifæri og reynt að finna vaxtarmöguleikana. „Þetta er kortlagning á möguleikunum með það að sjónarmiði hvar störfin geti orðið til án mikils viðbótarstofnkostnaðar og mikillar viðbótarskuldsetningar fyrir þjóðarbúið, vegna þess að aðstæðurnar bjóða ekki upp á slíkt," segir Steingrímur. Vissulega verði stjórnvöld þó að tryggja að réttu tækin séu til, s.s. starfandi bankakerfi, atvinnuþróunarfélög og Nýsköpunarsjóður.  

Hagstæð skilyrði í skipaiðnaði

Meðal þeirra starfa sem Vinstri grænir telja geta skapast eru 3.800-4.300 störf í ferðaþjónustu og tengdum greinum, en þar segir Steingrímur vaxtarmöguleika vera mikla. Eins geti 3.000-3.800 störf orðið til í hefðbundnum framleiðslugreinum. Hann nefnir sérstaklega 1.000 störf í greinum sem dregist hafa saman undanfarin ár.

„Þarna held ég að við gætum átt alveg gríðarlega vaxtarmöguleika. Það er enginn vafi á því að nú eru hagstæð skilyrði til að stórauka umsvif í skipaiðnaði, úrvinnsluiðnaði og í ullarframleiðslu svo dæmi séu tekin. Þetta eru greinar sem hafa átt erfitt hér á landi undanfarin ár og störfin hafa verið að flytjast úr landi, en nú er samkeppnisstaða okkar mun betri." Slippstöðin á Akureyri sé gott dæmi um slíkt fyrirtæki.

1.600-2.100 störf tengd nýsköpun og sprotastarfsemi geti þá litið dagsins ljós. Og mannaflsfrekum framkvæmdum, s.s. viðhaldsframkvæmdum, vegabótum og eflingu velferðar- og skólakerfisins, geti fylgt 2.500 störf hjá hinu opinbera. Ákvörðun um í hvaða framkvæmdir verði ráðist ætti hins vegar frekar að byggja á fjölda starfanna sem framkvæmdunum fylgja, fremur en framkvæmdakostnaði og stærð. „Við sjáum ekki stóriðju inni í þessari mynd sem neina stóra lausn." Lítil og meðalstór fyrirtæki, umhverfisvænn og framtíðarsækinn iðnaður eru vænlegri kostir að hans mati. 

Heimasíða VG

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert