Styrkir endurgreiddir

Frá landsfundi Sjálfstæðisflokksins í Laugardalshöll nýlega.
Frá landsfundi Sjálfstæðisflokksins í Laugardalshöll nýlega. mbl.is/Heiðar

Ný forysta Sjálfstæðisflokksins hefur ákveðið að flokkurinn skuli endurgreiða 30 milljóna króna styrk frá FL Group frá því í árslok 2006 og jafnframt hefur verið ákveðið að endurgreiða 25 milljóna styrk frá Landsbankanum, sem er frá sama tíma. Segir formaður flokksins að þessir styrkir séu óeðlilega háir.

Í yfirlýsingu frá flokknum segir, að nýrri forystu Sjálfstæðisflokksins hafi ekki veirð kunnugt um fjárstuðning fyrrnefndra fyrirtækja og harmi að gengið skuli hafa verið fram með þessum hætti.

Þá segir í yfirlýsingu frá Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, að hann hafi kallað eftir því að bókhald flokksins frá árinu 2006 verði opnað og upplýst um öll fjárframlög frá fyrirtækjum sem séu yfir milljón krónur.  

Yfirlýsing frá Sjálfstæðisflokknum 

Ný forysta Sjálfstæðisflokksins hefur ákveðið að flokkurinn skuli endurgreiða styrk frá FL Group frá því í árslok 2006 og jafnframt hefur verið ákveðið að endurgreiða styrk frá Landsbankanum, sem er frá sama tíma.

Samtals hljóða þessir styrkir upp á 55 milljónir. Sú ákvörðun hefur ennfremur verið tekin að opna bókhald Sjálfstæðisflokksins yfir alla styrki lögaðila sem bárust á árinu 2006 og nema hærri fjárhæð en einni milljón króna.

Nýrri forystu Sjálfstæðisflokksins var ekki kunnugt um fjárstuðning fyrrnefndra fyrirtækja og harmar að gengið skuli hafa verið fram með þessum hætti.

Ný forysta leggur áherslu á stuðning sinn við núgildandi lög um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og upplýsingaskyldu um þau, en frumvarp þar að lútandi var lagt fram á Alþingi að frumkvæði Sjálfstæðisflokksins í árslok 2006 og stóðu formenn allra stjórnmálaflokka að því.

Þar er kveðið á um það að framlög frá lögaðilum og einstaklingum megi að hámarki vera 300 þúsund, en markmiðið með því er að draga úr hættu á hagsmunaárekstrum og tryggja gagnsæi í fjármálum stjórnmálaflokkanna.

Yfirlýsing frá Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins:

„Ég harma að Sjálfstæðisflokkurinn hafi veitt styrkjum viðtöku frá einstökum aðilum upp á tugi milljóna. Það stangast gróflega á við þau gildi sem ég vil að Sjálfstæðisflokkurinn starfi eftir.

Ég hef kallað eftir upplýsingum um bókhald flokksins frá þessum tíma og komist að þeirri niðurstöðu að tveir styrkir sem bárust séu óeðlilega háir, annarsvegar frá FL Group og hinsvegar frá Landsbankanum. Það er niðurstaða nýrrar forystu Sjálfstæðisflokksins að skila verði þessum styrkjum.

Ég hef því kallað eftir því að bókhald flokksins frá árinu 2006 verði opnað og upplýst um öll fjárframlög frá fyrirtækjum sem eru yfir milljón krónur.

Ég skora jafnframt á aðra stjórnmálaflokka að gera slíkt hið sama í þeim tilgangi að eyða öllum vafa um óeðlileg framlög í aðdraganda lagasetningarinnar um fjármál stjórnmálaflokka.

Ég tel þessar aðgerðir nauðsynlegt skref til að fjármál Sjálfstæðisflokksins séu hafin yfir vafa og traust ríki í garð flokksins. Þetta er liður í nauðsynlegu uppgjöri innan flokksins og undirstrikar vilja nýrrar forystu til að ganga hreint til verks í þessum efnum sem öðrum."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert