Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi heilbrigðisráðherra, segist ekki hafa beðið fyrirtæki eða einstaklinga um að styrkja Sjálfstæðisflokkinn, enda hafi hann hvorki haft til þess umboð né áhuga. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Guðlaugur Þór sendi frá sér rétt í þessu.
Yfirlýsing Guðlaugs Þórs er svohljóðandi:
Í Morgunblaðinu í dag er því ranglega haldið fram í svonefndri „fréttaskýringu“ Agnesar Bragadóttur, að undirritaður hafi haft samband við tiltekin fyrirtæki og óskað fjárframlaga til Sjálfstæðisflokksins. Hið rétta er að ég fékk nokkra einstaklinga í flokknum til að aðstoða skrifstofu hans við fjársöfnun sem fram fór síðari hluta árs 2006. Ég óskaði ekki eftir styrk frá neinu ákveðnu fyrirtæki eða einstaklingi til Sjálfstæðisflokksins enda hafði ég hvorki umboð til þess né áhuga.
Fram skal einnig tekið að hvorki Agnes eða aðrir blaðamenn Morgunblaðsins sáu ástæðu til að hafa samband við undirritaðan við gerð ,,fréttarinnar" í dag . Ennfremur að ég hef ekki haft upplýsingar um fjármál flokksins í nútíð eða fortíð og ekki sóst eftir slíkum upplýsingum. Í desember árið 2006 lá ég á spítala vegna alvarlegra brunasára, en þá átti sér stað átak til að rétta við fjárhag Sjálfstæðisflokkins eftir sveitarstjórnarkosningar fyrr á árinu. Ég hvatti eins og áður sagði nokkra einstaklinga símleiðis, þar sem ég lá á Landsspítalanum til að leggja flokknum lið í því átaki og taka þátt í söfnuninni.
Ég vil hins vegar ítreka að ég bað hvorki einstök fyrirtæki eða fyrirtækjahópa um styrk. Ég einungis hvatti þessa einstaklinga til að aðstoða við söfnunina og benti þeim á að hafa samband við skrifstofu flokksins með það sem þeir myndu ná að safna. Ég hafði ekki frekari afskipti af málinu.
Ég harma að nafn mitt skuli vera dregið með þessum hætti inn í umræðuna og velti eðlilega fyrir mér hvaða hvatir liggi þar að baki.