Ljóst er á úrdrætti úr ársreikningum stjórnmálaflokkanna fyrir árið 2007, sem Ríkisendurskoðun birti nýlega á heimasíðu sinni, að fjárhagsstaða þeirra er ekki góð.
Þannig nam tap á rekstri sex stjórnmálaflokka, sem reikningar eru birtir fyrir, alls 280 milljónum króna á árinu 2007 en þá fóru fram alþingiskosningar. Skuldir flokkanna námu 503 milljónum króna í lok ársins 2007. Fimm þeirra voru með neikvætt eigið fé.
Samkvæmt reikningunum voru útgjöld Framsóknarflokksins á árinu 2007 178,2 milljónir króna. Tap á rekstrinum nam 60,3 milljónum króna og flokkurinn skuldaði 154,1 milljón í lok ársins. Eigið fé flokksins var neikvætt um 4,4 milljónir króna.
Útgjöld Frjálslynda flokksins nánu 88,4 milljónum króna þetta ár og tap á rekstrinum var 28,4 milljónir. Skuldir flokksins námu 29,5 milljónum í lok ársins 2007. Eigið fé var neikvætt um 27,4 milljónir króna.
Rekstur Íslandshreyfingarinnar kostaði 32,4 milljónir króna og tap á rekstrinum nam 29,1 milljón króna þetta ár. Flokkurinn skuldaði sömu upphæð en eignir voru nánast engar.
Gjöld Samfylkingarinnar voru 277,2 milljónir króna þetta ár. Tap á rekstrinum nam 89,8 milljónum króna og skuldir flokksins í árslok 2007 voru 124,4 milljónir króna. Eigið fé var neikvætt um 27,1 milljón króna.
Gjöld Sjálfstæðisflokksins námu 351,5 milljónum á árinu 2007 og tap á rekstrinum var 37,3 milljónir króna. Skuldir flokksins námu 75,6 milljónum króna. Eignir námu hins vegar 462 milljónum króna og eigið fé var því jákvætt um 386,4 milljónir króna.
Rekstur Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs kostaði 109,2 milljónir króna árið 2007 og tap nam 36,2 milljónum króna. Skuldir flokksins námu 90,9 milljónum. Eigið fé var neikvætt um 26,9 milljónir króna.
Ársreikningar stjórnmálaflokkanna