Guðlaugur ítrekar fyrri yfirlýsingar

Guðlaugur Þór Þórðarson ræsir þátttakendur í páskaeggjaleit í Elliðaárdal í …
Guðlaugur Þór Þórðarson ræsir þátttakendur í páskaeggjaleit í Elliðaárdal í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Guðlaugur Þór Þórðarson, alþingismaður, ítrekaði í dag að einu afskiptin sem hann hafi haft af öflun styrkja fyrir Sjálfstæðisflokkinn í lok ársins 2006 hafi verið þau, að hann hafi haft samband við nokkra einstaklinga og hvatt þá til að leggja flokknum lið við fjáröflun á meðan hann lá á sjúkrahúsi vegna brunasára. 

Guðlaugur Þór var viðstaddur upphaf páskaeggjaleitar í Elliðaárdal á vegum sjálfstæðisfélaga í Reykjavík og svaraði þar spurningum fréttamanna.  Hann ítrekaði við mbl.is, að fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins hefði stigið fram og axlað ábyrgð á því að Sjálfstæðisflokkurinn fékk 30 milljóna króna styrk frá FL Group og 25 milljóna króna styrk frá Landsbankanum í árslok 2006.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, átti fund með Guðlaugi Þór um málið í gær. Haft er eftir Bjarna í Fréttablaðinu í dag að Guðlaugur Þór hafi gert grein fyrir sínum hlut í málinu og það geti vel verið að hann þurfi að gera það eitthvað frekar.

Guðlaugur Þór sagði aðspurður um þetta, að hann hafi svarað öllum þeim spurningum, sem til hans hefði verið beint og myndi gera áfram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert