Hætta á einangrun Sjálfstæðisflokks

Gunnar Helgi Kristinsson prófessor.
Gunnar Helgi Kristinsson prófessor. mbl.is/Ómar

Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði, sagði í fréttum Ríkisútvarpsins í dag að það stefni í að Sjálfstæðisflokkurinn bæði  einangrist, lendi í hörmulegum kosningaósigri og að heiðarleiki hans sé dreginn í efa.

Gunnar Helgi sagði að flokkurinn virðist vera að stefna í einhverja sína verstu útkomu frá upphafi og kreppa Sjálfstæðisflokksins núna sé sú alvarlegasta sem hann hafi lent í að minnsta kosti frá árinu 1987 þegar Albert Guðmundsson klauf flokkinn.

Gunnar Helgi segir, að málið hafi hrundið af stað stríði innan flokksins sem snúist um mismunandi arma hans  og sést hafi glitta í í REI-málinu svonefnda.

„Þetta virðist vera einhvers konar framhald af því þar sem ákveðinn hluti borgarstjórnarflokksins snérist gegn Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni borgarstjóra og ýmsir aðilar sem hafa verið honum tengdir eða taldir tengdir honum hafa komið við sögu þessa máls, Geir Haarde, Andri Óttarsson og Guðlaugur Þór", sagði Gunnar.

Hann sagði að Sjálfstæðisflokkurinn neyðist til að svara spurningunni um það hvað peningarnir voru að gera til Sjálfstæðisflokksins nokkrum dögum áður en lög um fjármál stjórnmálaflokkanna tóku gildi, og nokkrum mánuðum áður en að fulltrúar flokksins komu að fyrirtækinu REI sem hafi væntanlega verið ábatasamt  fyrir þá aðila sem voru að gefa flokknum þessa fjármuni. Flokkurinn komist ekki hjá því að svara þessum spurningum, geti hann það ekki virðist engar líkur á því að hann nái sér í kosningabaráttunni og augljóst að þá eigi hann enga leið inn í ríkisstjórn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert