Segir báða framkvæmdastjóra hafa vitað af styrkjunum

Bjarni Benediktsson.
Bjarni Benediktsson.

Bjarni Bene­dikts­son, formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, sagðist í kvöld­frétt­um Stöðvar 2 telja að báðir fyrr­ver­andi fram­kvæmda­stjór­ar flokks­ins hafi vitað af risa­styrkj­un­um frá FL Group og Lands­bank­an­um eft­ir að þeir voru komn­ir í hús. Vísaði hann þar til Andra Ótt­ars­son­ar og Kjart­ans Gunn­ars­son­ar.

Bjarni sagði það rangt mat að í lagi hafi verið að veita styrkj­un­um tveim­ur viðtöku. „Frels­inu til þess að þiggja styrki frá fyr­ir­tækj­um fylgdi ekki nægi­leg ábyrgð í þessu til­viki. Þetta voru mis­tök. Það var rangt mat að það væri eðli­legt að færa þetta fé í bæk­ur flokks­ins,“ sagði Bjarni og tók fram að hon­um fynd­ist Geir H. Haar­de, fyrr­ver­andi for­manni flokks­ins hafa gert mjög vel grein fyr­ir því að hann hafi tekið ákvörðun­ina um málið. 

„Fram­kvæmda­stjór­inn sem þá var hér að störf­um bar þá ákvörðun und­ir hann og hún var tek­in af for­manni og hann hef­ur axlað sína ábyrgð,“ sagði Bjarni og sagðist þarf ver að vísa í Andra Ótt­ars­son, sem á þeim tíma var að setja sig inn í störf­in sem nýr fram­kvæmda­stjóri Sjálf­stæðis­flokks­ins. „Hann hef­ur greint mér frá því og Geir líka að ákvörðunin hafi verið Geirs.“ 

Kjart­an Gunn­ars­son, fyrr­ver­andi fram­kvæmda­stjóri Sjálf­stæðis­flokks­ins, hef­ur ít­rekað lýst því yfir í fjöl­miðlum að hann hafi ekk­ert vitað um málið. Þegar borið var und­ir Bjarna þær upp­lýs­ing­ar frétta­stofu Stöðvar 2 að hún vissi til þess að Kjart­an hefði vitað um styrk­ina sagði Bjarni best að málið væri borið und­ir Kjart­an beint og milliliðalaust. 

„Fyr­ir mér er það aug­ljóst að þeir sem voru hér á skrif­stof­unni og gegndu æðstu embætt­is­störf­um höfðu vitn­eskju um að styrk­ur hafði borist. Það sem að máli skipt­ir er hins veg­ar ekki þetta, held­ur hitt hver tek­ur ákvörðun um að færa þær upp­hæðir í bæk­ur flokks­ins. Ég tel að báðir fram­kvæmda­stjór­arn­ir, Kjart­an sem var þá að ljúka störf­um, og Andri, sem var að hefja störf, hafi haft vitn­eskju eft­ir að styrk­ur­inn kom í hús. En fyr­ir mér skipt­ir það í sjálfu sér engu máli. Það sem skipt­ir máli er að formaður flokks­ins tók ákvörðun um að veita styrkj­un­um viðtöku,“ sagði Bjarni.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert