Segir báða framkvæmdastjóra hafa vitað af styrkjunum

Bjarni Benediktsson.
Bjarni Benediktsson.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagðist í kvöldfréttum Stöðvar 2 telja að báðir fyrrverandi framkvæmdastjórar flokksins hafi vitað af risastyrkjunum frá FL Group og Landsbankanum eftir að þeir voru komnir í hús. Vísaði hann þar til Andra Óttarssonar og Kjartans Gunnarssonar.

Bjarni sagði það rangt mat að í lagi hafi verið að veita styrkjunum tveimur viðtöku. „Frelsinu til þess að þiggja styrki frá fyrirtækjum fylgdi ekki nægileg ábyrgð í þessu tilviki. Þetta voru mistök. Það var rangt mat að það væri eðlilegt að færa þetta fé í bækur flokksins,“ sagði Bjarni og tók fram að honum fyndist Geir H. Haarde, fyrrverandi formanni flokksins hafa gert mjög vel grein fyrir því að hann hafi tekið ákvörðunina um málið. 

„Framkvæmdastjórinn sem þá var hér að störfum bar þá ákvörðun undir hann og hún var tekin af formanni og hann hefur axlað sína ábyrgð,“ sagði Bjarni og sagðist þarf ver að vísa í Andra Óttarsson, sem á þeim tíma var að setja sig inn í störfin sem nýr framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins. „Hann hefur greint mér frá því og Geir líka að ákvörðunin hafi verið Geirs.“ 

Kjartan Gunnarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, hefur ítrekað lýst því yfir í fjölmiðlum að hann hafi ekkert vitað um málið. Þegar borið var undir Bjarna þær upplýsingar fréttastofu Stöðvar 2 að hún vissi til þess að Kjartan hefði vitað um styrkina sagði Bjarni best að málið væri borið undir Kjartan beint og milliliðalaust. 

„Fyrir mér er það augljóst að þeir sem voru hér á skrifstofunni og gegndu æðstu embættisstörfum höfðu vitneskju um að styrkur hafði borist. Það sem að máli skiptir er hins vegar ekki þetta, heldur hitt hver tekur ákvörðun um að færa þær upphæðir í bækur flokksins. Ég tel að báðir framkvæmdastjórarnir, Kjartan sem var þá að ljúka störfum, og Andri, sem var að hefja störf, hafi haft vitneskju eftir að styrkurinn kom í hús. En fyrir mér skiptir það í sjálfu sér engu máli. Það sem skiptir máli er að formaður flokksins tók ákvörðun um að veita styrkjunum viðtöku,“ sagði Bjarni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka