Fréttaskýring: Sjálfstæðisflokkurinn logar vegna styrkjanna

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins í Laugardalshöll nýlega.
Landsfundur Sjálfstæðisflokksins í Laugardalshöll nýlega.

Mikill titringur hefur verið innan Sjálfstæðisflokksins síðustu daga vegna frétta þess efnis að flokkurinn hafi þegið milljóna tuga styrki frá FL Group og Landsbanka. Það mun vera vægt til orða tekið að fjárhagsstaða flokksins hafi verið slæm á þessum tíma í lok árs 2006. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins var hún hreinlega í rúst og farið var í þetta fjáröflunarátak vegna þess að menn sáu ekki fram á að ná endum saman.

Meira þarf en játningu Geirs

Sá eini sem orðið hefur við því kalli er Andri Óttarsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, sem sagði af sér um miðjan dag í gær þar sem mikilvægt væri „að leita allra leiða til að skapa traust og frið um flokksstarfið“, eins og segir í yfirlýsingu hans. Hann segist hins vegar ekki hafa átt frumkvæði að því að haft var samband við FL Group eða Landsbankann og ekki heldur tekið ákvörðun um að veita styrkjunum viðtöku.

Gréta Ingþórsdóttir, fyrrverandi aðstoðarmaður Geirs Haarde, hefur verið beðin um að taka við af Andra sem framkvæmdastjóri fram yfir kosningar. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að hún hafi fullt traust til starfans.

Guðlaugur Þór Þórðarson þingmaður hefur neitað því alfarið að hann hafi beðið um styrki frá neinu ákveðnu fyrirtæki, heldur hafi hann fengið „nokkra einstaklinga í flokknum til að aðstoða skrifstofu hans við fjársöfnun“. Hann hafi ekki fylgt málinu eftir heldur bent þessum mönnum á að hafa samband við skrifstofu flokksins með það sem þeir næðu að safna. Yfirlýsing Guðlaugs var birt í heild á mbl.is á fimmtudag. Í gær sendu formenn 13 sjálfstæðisfélaga í Reykjavík frá sér yfirlýsingu um fullan stuðning við Guðlaug Þór.

Bjarni Benediktsson hefur sjálfur sagt að þeir sem óskuðu eftir styrkjunum frá Landsbanka og FL Group hafi ekki verið kjörnir fulltrúar heldur menn sem tóku að sér fjáröflun fyrir flokkinn. Hann segist ekki sem stendur vera reiðubúinn að upplýsa hverjir þessir aðilar séu.

Bjarni átti fund með Guðlaugi Þór vegna umræðunnar um ábyrgð þess síðarnefnda þar sem þeir skiptust á skoðunum og sagðist Bjarni í viðtali á Bylgjunni enga ástæðu hafa til annars en að trúa flokksbróður sínum. Hann vildi þó ekki tjá sig nánar við fjölmiðla um hvað þeim fór á milli og segir Guðlaug sjálfan geta greint frá sinni stöðu telji hann þörf á því.

Fundur þeirra Bjarna og Guðlaugs er hins vegar ekki sá eini sem haldinn hefur verið vegna málsins, þrátt fyrir páskafrí, því samkvæmt heimildum Morgunblaðsins voru málin rædd af miklum hita í hverju horni innan Sjálfstæðisflokksins í gær. Víða gætir mikillar reiði meðal flokksmanna og segja heimildarmenn Morgunblaðsins að illa hafi gengið að róa menn niður vegna málsins. Líklegt sé að málið muni skilja eftir varanleg ör á flokknum.

Fundað fram á kvöld

Það var ekki fyrr en undir kvöld sem þingflokkurinn kom saman en að loknum þeim fundi lá engin endanleg niðurstaða fyrir, önnur en sátt um að Bjarni Benediktsson leiddi málið til lykta. „Mér finnst það mestu skipta að formaður flokksins fyrrverandi hefur stigið fram og sagt að hann beri ábyrgð á því að hafa veitt þessum styrkjum viðtöku,“ sagði Bjarni við Morgunblaðið að fundinum loknum.

„Það kann að vera að varpa þurfi betur ljós á atburðarásina. Ég er ennþá að afla mér upplýsinga um hana í heild sinni og ég mun á grundvelli þess stíga fram og greina frá því sem ég tel að geti orðið til þess.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert