Söfnuðu fé fyrir flokkinn

Steinþór Gunnarsson, ráðgjafi, og Þorsteinn Jónsson, stjórnarformaður Vífilfells, hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þeir segjast hafa tekið þátt í því að safna fé fyrir Sjálfstæðisflokkinn í desember 2006 eftir hvatningu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar.

Hafi Steinþór haft frumkvæði að því að fá styrk hjá Landsbankanum og Þorsteinn leitaði til FL Group. Þorsteinn var varaformaður stjórnar FL Group þegar þetta var og Steinþór stýrði verðbréfamiðlun Landsbankans.

Segja þeir aðkomu sína að söfnuninni hafa hafist þegar Guðlaugur Þór Þórðarson, alþingismaður, hafði samband við þá og upplýsti að fjárhagsstaða Sjálfstæðisflokksins væri mjög bágborin.

Yfirlýsing Steinþórs Gunnarsonar og Þorsteins Jónssonar er svohljóðandi:

„Við undirritaðir áttum þátt í því að safna fé fyrir Sjálfstæðisflokkinn í desember 2006. Aðkoma okkar að söfnuninni hófst þegar Guðlaugur Þór Þórðarson, alþingismaður, hafði samband við okkur og upplýsti að fjárhagsstaða flokksins væri mjög bágborin. Hann hvatti okkur til að leggja flokknum lið og safna fjármunum fyrir hann, en hafði ekki frekari afskipti af málinu eftir það.
 
Við höfum starfað innan Sjálfstæðisflokksins til ára og áratuga og þótti okkur því sjálfsagt og eðlilegt að verða við kallinu um að leggja flokknum lið. Við höfðum því samband við fjölda fyrirtækja í leit að styrkjum, með mismunandi árangri.
 
Undirritaður, Steinþór Gunnarsson, hafði frumkvæði að því að óska eftir styrk frá Landsbanka Íslands og undirritaður, Þorsteinn Jónsson, hafði frumkvæði að því að óska eftir styrk frá FL Group. Það var að sjálfsögðu á forræði þessara fyrirtækja að ákveða endanlega hversu háan styrk þau vildu veita.
 
Þessir styrkir, sem og aðrir sem við öfluðum, voru síðan greiddir inn á reikning Sjálfstæðisflokksins. Það var á ábyrgð flokksins að veita þessum fjármunum viðtöku, enda hefur það komið skýrt fram í yfirlýsingu fyrrverandi formanns hans.
 
Ýmsir aðilar hafa reynt að gera þessa atburðarás tortryggilega. Við hörmum það. Við vorum einungis að leggja Sjálfstæðisflokknum lið í miklum fjárhagserfiðleikum og lögðum okkur alla fram í þeim tilgangi.
 
Með yfirlýsingu þessari höfum við gert grein fyrir okkar þætti í þessu máli og munum ekki tjá okkur frekar um það.
 
Reykjavík, 11. apríl 2009,
Steinþór Gunnarsson
Þorsteinn Jónsson“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka