Framsókn opnar bókhaldið

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Ómar

Framsóknarflokkurinn hefur birt yfirlit yfir þau fyrirtæki sem veittu styrki að upphæð ein milljón króna eða hærri árið 2006. Stærsta einstaka framlagið nemur 5 milljónum kr. frá byggingarfélaginu Eykt. Kaupþing banki kemur næstur á eftir með 4 milljónir kr.

„Forysta Framsóknarflokksins leggur áherslu á að stjórnmálaflokkar upplýsi eftir fremsta megni um háar styrkveitingar og önnur tengsl stjórnmála og viðskiptalífs í aðdraganda efnahagshrunsins. Kjör hinnar nýju forystu á flokksþingi í janúar sl. snérist enda að miklu leyti um einlægan vilja grasrótar flokksins til að rjúfa hugsanleg hagsmunatengsl fortíðar. Þannig tók Framsóknarflokkurinn forystu í endurnýjun stjórnmálanna,“ segir á vef Framsóknar.

Þá segir að enda þótt núverandi framkvæmdastjóri hafi ekki verið kominn til starfa á árinu 2006, og formaðurinn raunar ekki verið genginn í flokkinn á þeim tíma, hafi verið talið æskilegt að leita samþykkis fyrir nafnbirtingu hjá þeim fyrirtækjum sem veittu styrki í trúnaði á sínum tíma. Það eigi við jafnvel þótt um sé að ræða fyrirtæki sem þegar hafa flest hver verið nefnd sem styrkveitendur annarra flokka.

Unnið hafi verið að því að afla leyfa til að birta upplýsingar um helstu styrkveitingar til Framsóknarflokksins á árinu 2006. Þeir styrkir séu raunar talsvert lægri en hjá Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu.

„Það var mat Framsóknarflokksins að háir styrkir fyrirtækja til stjórnmálaflokka gætu orkað tvímælis og því var flokkurinn í forystu fyrir því að lög yrðu sett um hámark á slíkar styrkveitingar og að flokkum yrði gert að birta bókhald sitt eins og nú er raunin,“ segir á vef Framsóknarflokksins.

BNT                                    2.500.000
Ehf. Andvaka                        1.000.000
Ehf. Samvinnutryggingar         1.000.000
Eimskip                                1.000.000
Eykt                                    5.000.000
Glitnir                                  2.500.000
Kaupþing banki                      4.000.000
Landsbankinn                        2.000.000
Mjólkursamsalan                    1.000.000
Nýsir                                   2.000.000
Samskip                               1.500.000

Samtals:                           23.500.000



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka