Erla Ósk Ásgeirsdóttir, frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins, fjallar á vef sínum í dag um styrki til stjórnmálaflokka. Segir hún að þrátt fyrir að styrkir FL Group og Landsbankans til Sjálfstæðisflokksins hafi verið háir séu þeir miðaðar við styrki frá öðrum fyrirtækjum til flokksins, en það merki ekki endilega að um vafasamt athæfi hafi verið að ræða.
„Taka verður inn í myndina þær þjóðfélagsaðstæður sem voru á Íslandi á þeim tíma sem styrkirnir voru veittir og að staða fyrirtækjanna tveggja sem um ræðir var metin gríðarlega sterk á þeim tíma. Jafnframt er ekki hægt að horfa framhjá því að einstaklingarnir sem útveguðu styrkina höfðu sterkt tengsl inn í viðkomandi fyrirtæki. Það er hins vegar annað mál hvernig staðið var að ákvarðanatöku varðandi veitingu styrkjanna innan viðkomandi fyrirtækja," skrifar Erla Ósk á vef sinn.
Segir hún að það hafi verið á brattan að sækja fyrir Sjálfstæðisflokkinn að undanförnu. Flokkurinn sem verið hefur forystuafl í stjórnmálum landsins undanfarin 18 ár er nú kominn í minnihluta og situr á hliðarlínunni þegar teknar eru mikilvægar ákvarðanir um framtíð fjölskyldna og fyrirtækja landsins.
„Nú þegar rétt rúmir 10 dagar eru til kosninga glímir flokkurinn við trúverðugleika vandamál vegna styrkja sem flokkurinn veitti viðtöku árið 2006. Margir hafa lagst á eitt við að gera þetta mál sem tortryggilegast fyrir flokkinn og kjörna fulltrúa hans, en ekki má gleyma því að það eru talsverðir hagsmunir fyrir pólitíska andstæðinga Sjálfstæðisflokksins að þetta mál sé blásið upp í fjölmiðlum svo skömmu fyrir kosningar."
Segir Erla Ósk vandamál Sjálfstæðisflokksins og allra annarra stjórnmálaflokka hvað varðar styrkveitingar frá fyrirtækjum sé að stjórnmálamenn hafi alls ekki efni á vafanum.
„Það sem átt er við er að það má aldrei vera vafi um hvort að styrkjum frá lögaðilum fylgi beiðni eða krafa um ákveðna fyrirgreiðslu á vettvangi stjórnmálanna. Vafinn einn og sér getur grafið undan því góða starfi sem unnið er innan stjórnmálaflokka. Stjórnmálamenn hafa mikil völd og það er gríðarlega mikilvægt fyrir samfélagið í heild að almenningur geti treyst því að stjórnmálamenn sama hvar í flokki þeir eru, taki ákvarðanir byggðar á heilindum og að þær séu teknar út frá bestu sannfæringu."