Persónukjör ekki leyfilegt

Formaður yfirkjörstjórnar Norðvesturkjördæmis segir að Lýðræðishreyfingin hafi fengið frest til að laga framboðlista hreyfingarinnar í kjördæminu. Þar skipar Jón Pétur Líndal efsta sætið. Hvað varðar önnur sæti þá eiga kjósendur að raða í þau sjálfir. Þetta er hins vegar ekki leyfilegt enda ekki búið að leyfa persónukjör. Kjörstjórn mun úrskurða í málinu á morgun.

Á listanum eiga að vera 18 nöfn eða tvöföld tala þingmanna kjördæmisins og hefur hreyfingin skilað slíkum nafnalista. Hins vegar hefur aðeins einn verið skipaður í ákveðið sæti.

„Það er búið að skila 18 nöfnum en hinir [utan Jóns Péturs Líndals] eru í stafrófsröð. Við munum úrskurða um þetta á morgun. Ég held að þetta sé eitthvað sem við þurfum að skoða í öllum kjördæmum,“ segir Ríkharður Másson, formaður yfirkjörstjórnar Norðvesturkjördæmis, í samtali við mbl.is.

„Þau hafa fengið frest til að laga sitt,“ segir Ríkharður. Hann segist hins vegar aðspurður ekki hafa fengið nein viðbrögð frá Lýðræðishreyfingunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert