Ríkisendurskoðun hefur ekki heimild

Guðlaugur Þór Þórðarson
Guðlaugur Þór Þórðarson Ómar Óskarsson

Rík­is­end­ur­skoðun hef­ur ekki heim­ild til að safna upp­lýs­ing­um inn­an Orku­veitu Reykja­vík­ur um störf stjórn­ar­formanna, eins og Guðlaug­ur Þór Þórðar­son alþing­ismaður sagðist í yf­ir­lýs­ingu í gær ætla að óska eft­ir. Rík­is­end­ur­skoðun hef­ur enn ekki borist form­legt er­indi frá Guðlaugi.

„Við höf­um ekki fengið þetta inn á borð til okk­ar ennþá, svo það er svo sem ekki hægt að segja af eða á um það,“ seg­ir Sveinn Ara­son rík­is­end­ur­skoðandi. „Ég veit ekki ná­kvæm­lega í hverju beiðnin felst um­fram það sem ég las í Morg­un­blaðinu í morg­un, en ég get svo sem sagt að miðað við það sem þar stend­ur þá höf­um við enga heim­ild til að fara út í þá rann­sókn sem þar er til­greind.“

Guðlaug­ur Þór sagði í yf­ir­lýs­ingu í gær að hann óskaði þess að Rík­is­end­ur­skoðun tæki út störf hans sem stjórn­ar­formaður Orku­veitu Reykja­vík­ur og skilaði niður­stöðu sem fyrst. Vafi er hins­veg­ar um hvort slík rann­sókn er yf­ir­höfuð í verka­hring Rík­is­end­ur­skoðunar.

„Það er næsta ljóst að við höf­um enga heim­ild til þess, ég held að það sé al­veg tæm­andi talið í raun­inni hvaða heim­ild­ir við höf­um til að rann­saka svona atriði, í lög­un­um um rík­is­end­ur­skoðun. En það verður nátt­úru­lega að hafa það í huga að ég er ekki með neitt er­indi á borðinu hjá mér,“ seg­ir Sveinn.

Hann seg­ist ekki muna til þess að Rík­is­end­ur­skoðun hafi áður ráðist í viðlíka rann­sókn né geta sagt til um hversu lang­an tíma slík rann­sókn tæki ef til henn­ar kæmi, „enda þarf ég ekk­ert að velta því fyr­ir mér.“ 

Sam­kvæmt lög­um um Rík­is­end­ur­skoðun skal stofn­un­in ann­ast end­ur­skoðun rík­is­reikn­ings og reikn­inga stofn­ana, sjóða og annarra aðila sem rekn­ir eru á ábyrgð rík­is­sjóðs eða rík­is­sjóður á. Orku­veita Reykja­vík­ur er í eigu sveit­ar­fé­laga.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert