Sjö skiluðu inn framboðslistum og meðmælendum í Norðausturkjördæmi, Suðurkjördæmi, Suðvesturkjördæmi, Norðvesturkjördæmi og í Reykjavíkurkjördæmunum, áður en framboðsfrestur rann út á hádegi.
Jónas Þór Guðmundsson, lögmaður og formaður yfirkjörstjórnar í Suðvesturkjördæmi, segir að farið verði yfir gögn sem fylgdu tilkynningum framboðanna í dag. Formlegur fundur verður haldinn á morgun klukkan 10 þar sem úrskurðað verður um hvort framboðin teljist gild.
Inga Þöll Þórgnýsdóttir, formaður yfirkjörstjórnar Norðausturkjördæmis, segir að fundað verði með framboðunum klukkan 13 á morgun en þá verði yfirferð yfir listana og meðmælendur lokið. Ef einhverjir minniháttar hnökrar koma í ljós verða framboðin upplýst um það strax og gefinn frestur til að skila inn leiðréttingum fyrir fundinn á morgun.
Ef um frekari vandamál er að ræða fá framboðin frest í nokkrar klukkustundir á morgun til þess að kippa þeim í lag, segir Inga Þöll.
Framboðin sem um ræðir eru: Borgarahreyfingin, Framsóknarflokkurinn, Frjálslyndi flokkurinn, Lýðræðishreyfingin, Samfylkingin, Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstrihreyfingin-grænt framboð.
Karl Gauti Hjaltason, sýslumaður í Vestmannaeyjum og formaður kjörstjórnar í Suðurkjördæmi, segir að farið verði yfir það í dag hvort framboðin uppfylla lagaskilyrði og verður úrskurður kveðinn upp klukkan 11 á morgun.
Ríkharður Másson, formaður kjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi segir að ætlunin sé að funda með framboðunum klukkan 10 í fyrramálið en fundurinn gæti eitthvað frestast fram eftir degi þar sem talsverð vinna sé að fara yfir listana.