Tvöföld atkvæðagreiðsla „slæmur kostur“

Afstaða Vinstri grænna og Samfylkingarinnar gagnvart aðild að ESB er …
Afstaða Vinstri grænna og Samfylkingarinnar gagnvart aðild að ESB er ólík. Ekki hafa fengist skýr svör hvað muni gerast í Evrópumálum nái flokkarnir að mynda nýja ríkisstjórn eftir kosningar. mbl.is/Golli

„Mér þætti það slæmur kostur,“ sagði Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, spurður út í það á borgarafundi í Reykjavíkurkjördæmi norður í kvöld hvort hann væri til í tvöfalda atkvæðagreiðslu um Evrópusambandsaðild.

„Við hljótum að vera til viðræðu um alla hluti. En mér finnst ákaflega skrítin þjóðaratkvæðagreiðsla um samning sem enginn veit hver er,“ sagði hann ennfremur, en fundurinn var sýndur í beinni útsendingu í Sjónvarpinu.

Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra og þingmaður Vinstri grænna, var þá spurð út í það hvort VG óttist ekki að stjónarsamstarf við Samfylkinguna verði sjálfhætt komist Evrópumálin ekki á dagskrá. En vísað var til ummæla sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, lét falla í viðtali við RÚV í desember sl. um samstarf Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar, þ.e. að því yrði sjáfhætt myndu sjálfstæðismenn ekki endurskoða afstöðu sína gagnvart ESB.

„Fyrst þarf reyndar að kjósa og þegar menn setjast niður að loknum kosningum, ef það verða þessir tveir flokkar, þá hef ég trú á því að fleira sameini en sundri,“ sagði Katrín og vísaði þá aðallega til sameiginlegra velferðarmála flokkanna tveggja.

Spurð út í tvöfalda atkvæðagreiðslu sagði Katrín: „Þetta er hugmynd sem var telft fram af okkur [...] þannig að augljóslega kemur hún til greina.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka