Einhverjir hnökrar á framboðslistum

Þorvaldur Örn Kristmundsson

Enn eru einhverjir hnökrar á framboðslistum sem skilað var til yfirkjörstjórna í gær. Fundað verður með umboðsmönnum framboðanna sjö sem skiluðu inn listum í dag. Í Suðvesturkjördæmi fengu bæði Borgarahreyfingin og Lýðræðishreyfingin frest til þess að skila skriflegum umboðum um að þeir sem eru á listum framboðanna samþykki að taka sæti á þeim. Borgarahreyfingin hefur þegar skilað slíkum umboðum til yfirkjörstjórnar en ekki hafa borist slíkar yfirlýsingar frá frambjóðendum Lýðræðishreyfingarinnar.

Yfirkjörstjórn í SV-kjördæmi hefur frestað fundi með umboðsmönnum framboðanna sem halda átti klukkan 10 í morgun til klukkan 19 í kvöld þar sem enn er verið að fara yfir listana.

Í Norðvesturkjördæmi var einungis efsti maður á lista Lýðræðishreyfingarinnar skráður í ákveðið sæti listans. Aðrir á framboðslistanum voru einungis skráðir í stafrófsröð, það er þeir voru ekki skráðir í ákveðin sæti listans. Hefur Lýðræðishreyfingin fengið frest til þess að gera bragarbót á þessu en fundað verður með framboðunum klukkan 14 í dag.

Í Norðausturkjördæmi er enn verið að fara yfir gögn framboðanna sjö og verður fundað með þeim klukkan 13. Framboðin hafa hins vegar fengið frest til klukkan 16 til þess að lagfæra þær smávægilegu athugasemdir sem gerðar hafa verið við framboðin.

Í Reykjavík suður verður fundað með framboðum klukkan 13 og í Reykjavík norður klukkan 14. Einhverjar ábendingar hafa verið sendar til framboðanna í þessum kjördæmum en ekkert stórvægilegt hefur komið þar upp.

Í Suðurkjördæmi hefur fundur verið boðaður klukkan 14 og standa vonir til þess að þá verði hægt að úrskurða um hvort framboðs- og meðmælendalistar séu gildir. Einhverjar leiðréttingar hafa skilað sér til kjörstjórnar vegna hnökra sem verið hafa á listum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka