Búið er að úrskurða nær alla framboðslista fyrir komandi kosningar gilda. Enn eru nokkrir annmarkar á listum Lýðræðishreyfingarinnar í flestum kjördæmum, sem hefur fengið frest til morguns til að laga það sem aflaga er.
Yfirkjörstjórn í Norðvesturkjördæmi er búin að úrskurða alla sjö listana gilda fyrir komandi kosningar að sögn Ríkharðs Mássonar, formanns yfirkjörstjórnar. Annamarkar voru á lista Lýðræðishreyfingarinnar í kjördæminu en að sögn Ríkharðs voru þeir ekki nægjanlega miklir þannig að listinn var samþykktur. Hann segir að nokkrir frambjóðendur á listanum hafi ekki gefið upp í hvaða kjördæmi þeir væru að bjóða sig fram í. Túlka verði hins vegar allan vafa frambjóðendunum í hag. Listarnir hafa verið sendir landskjörstjórn, sem mun taka endanlega ákvörðun um gildi listanna.
Búið er að úrskurða sex framboðslista gilda í Norðausturkjördæmi, þ.e. lista Borgarahreyfingarinnar, Frjálslynda flokksins, Sjálfstæðisflokksins, Framsóknar, Samfylkingarinnar og VG. Lýðræðishreyfingin hefur hins vegar fengið frest til kl. 11 á morgun til að gera bætur á lista yfir meðmælendur að sögn Ingu Þöll Þórgnýsdóttur, formanns yfirkjörstjórnar í kjördæminu.
Þá er búið að úrskurða sex lista gilda í Reykjavíkurkjördæmi norður að sögn Erlu S. Árnadóttur, formanns yfirkjörstjórnar. Enn eru annmarkar á lista Lýðræðishreyfingarinnar sem hefur fengið frest til morguns að gera bragarbót á þeim.
Í Reykjavíkurkjördæmi suður eru flestir listarnir orðnir klárir. Búið er að veita frest til kl. 12 á morgun til endanlegs frágangs. Sveinn Sveinsson, formaður yfirkjörstjórnar, segir að enn vanti samþykki frambjóðendanna á framboðslista Lýðræðishreyfingarinnar um að þeir bjóði fram í kjördæminu.
Í Suðvesturkjördæmi verður úrskurðað um alla listana kl. 19 í kvöld utan framboðslista Lýðræðishreyfingarinnar. Sama er uppi á tengingum þar og í Reykjavíkurkjördæmi suður, þ.e. að það vantar samþykki frambjóðenda á framboðslistanum um að þeir bjóði fram í kjördæminu. Hreyfingunni hefur verið veittur frestur til kl. 13 á morgun til að bæta úr þessu.
Yfirkjörstjórn í Suðurkjördæmi hefur úrskurðað sex framboðslista af sjö sem bárust fyrir klukkan 12 á hádegi í gær gilda. Listi Lýðræðishreyfingarinnar er enn ógildur en hreyfingin hefur frest til klukkan 18 í dag til að bæta úr annmörkum.
Karl Gauti Hjaltason, formaður yfirkjörstjórnar í Suðurkjördæmi, sagði í samtali við Sunnlending.is að Lýðræðishreyfinguna hafi vantað 18 meðmælendur til að hægt væri að úrskurða listann gildan.