Fréttaskýring: Stefnir í pólitískan jarðskjálfta í kosningunum?

Mikið hefur gengið á í stjórnmálum á umliðnum mánuðum og fylgissveiflur flokkanna frá því bankahrunið hófst verið meiri en dæmi eru um. Upplýsingar sem birst hafa á umliðnum dögum um fjárstyrki til flokka virðast auka á umrótið í kjósendahópnum. Fyrstu vísbendingar um það koma fram í nýrri fylgiskönnun Capacent Gallup í Reykjavíkurkjördæmi norður fyrir Morgunblaðið og RÚV.

Gera má ráð fyrir að fylgisdýfu Sjálfstæðisflokksins í könnuninni nú megi rekja að umtalsverðu leyti til styrkjamálsins. Í könnunum að undanförnu hefur fylgi flokksins á landsvísu oft verið nálægt 25-26%. Nú mælist hann með 22% fylgi í Reykjavík norður sem er mikið fall ef mið er tekið af seinustu kosningum, þegar kjörfylgi hans reyndist 36,4% í kjördæminu. Könnunin er gerð dagana 8. til 13. apríl, þegar umræða og fréttir af fjárstyrkjunum bar hæst. Rétt er að hafa í huga að vikmörkin eru töluverð eða 4,2%.

Gætu náð vopnum sínum

„Ef þetta væru úrslit kosninga þá væri þarna á ferðinni pólitískur jarðskjálfti,“ segir Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Hann bendir á að könnunin er gerð á mjög óheppilegum tíma fyrir Sjálfstæðisflokkinn sem hefur verið í miðdepli umræðunnar um fjárstyrkina. „Ég geri ráð fyrir að hann eigi einhverja möguleika á að ná vopnum sínum eftir þetta,“ segir hann.

Þó upplýsingar hafi líka komið upp á yfirborðið um umtalsverða fjárstyrki til Samfylkingarinnar, virðast þær ekki bitna á flokknum í þessari könnun. Fylgi hennar eykst og mælist nú rúm 34% í kjördæmi formannsins, Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra.

Fylgi VG stóreykst og fer úr 16,9% í kosningunum í 29,1% og Borgarahreyfingin fær 8,1% stuðning og nær mun betri árangri en áður hefur sést í könnunum.

Sveiflurnar sem þessi könnun ber með sér er þó ekkert einsdæmi eins og áður segir. Bæði Sjálfstæðisflokkur og Samfylking tóku mikla dýfu seint á seinasta ári, fóru niður undir 20% á landsvísu í könnunum og Framsóknarflokkurinn, sem mælist nú með aðeins 5,3% í Reykjavíkurkjördæmi norður, sveiflaðist úr um 8% fylgi á landsvísu yfir 17% í könnunum á fáum vikum fyrr í vetur. Margt getur því breyst á þeim tíu dögum sem eru til kosninga en reynslan sýnir að þegar nær dregur kosningum festa fleiri kjósendur ráð sitt og sveiflurnar minnka.

Sjálfstæðisflokkur fellur um 14 prósentustig

Miklar sveiflur eru á fylgi flokkanna í Reykjavíkurkjördæmi norður skv. nýrri könnun Capacent, ef borið er saman við úrslit kosninganna 2007. Stuðningur við lista Sjálfstæðisflokksins fellur úr 36,4% í kjördæminu í síðustu kosningum í 22% nú, skv. niðurstöðum könnunarinnar. Flokkurinn myndi missa tvo þingmenn skv. þessu og fá tvo kjörna ef mið er tekið af þessari útkomu.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð er hástökkvarinn að þessu sinni, mælist nú með 29,1% fylgi samanborið við 16,9% í kosningunum 2007. Fylgi Samfylkingarinnar mælist 34,3% og eykur hún fylgi sitt verulega, fékk 29,2% í kjördæminu í kosningunum 2007. Borgarahreyfingin fær skv. könnuninni 8,1% eða nokkru meira en Framsóknarflokkurinn sem missir fylgi og mælist nú með 5,3% (fékk 6,2% í síðustu kosningum). Hvorugur flokkurinn fengi mann kjörinn. Frjálslyndi flokkurinn mælist með 1,1% fylgi og missir miknn stuðning frá kosningum en hann fékk 6,3% í kjördæminu 2007. Fylgi Lýðræðishreyfingarinnar mælist 0,2%.

Skv. þessum niðurstöðum fengi Samfylkingin fjóra kjördæmakjörna þingmenn, VG þrjá og Sjálfstæðisflokkurinn tvo. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, næði ekki kjöri á þing skv. þessum niðurstöðum. Borgarahreyfingin er næst því að koma inn manni í kjördæminu, á kostnað fjórða mannsins á lista Samfylkingarinnar. Tvö uppbótarþingsæti eru að auki í kjördæminu.

Könnunin var gerð fyrir RÚV og Morgunblaðið dagana 8. til 13. apríl. Heildarúrtak var 800 manns, 18 ára og eldri. Svarhlutfallið var 60,5%.

Í hnotskurn
» 11,4% svarenda í Reykjavíkurkjördæmi norður sögðust ekki ætla að kjósa eða skila auðu.
» 82,6% sögðu miklar líkur á að þeir kjósi í alþingiskosningunum, 8,8% sögðu nokkrar líkur á því en 8,6% litlar eða engar líkur.
» 65,4% svarenda í Reykjavíkurkjördæmi norður segjast styðja ríkisstjórnina. 34,6% gera það ekki.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert