Fréttaskýring: Stefnir í pólitískan jarðskjálfta í kosningunum?

Mikið hefur gengið á í stjórnmálum á umliðnum mánuðum og fylgissveiflur flokkanna frá því bankahrunið hófst verið meiri en dæmi eru um. Upplýsingar sem birst hafa á umliðnum dögum um fjárstyrki til flokka virðast auka á umrótið í kjósendahópnum. Fyrstu vísbendingar um það koma fram í nýrri fylgiskönnun Capacent Gallup í Reykjavíkurkjördæmi norður fyrir Morgunblaðið og RÚV.

Gera má ráð fyrir að fylgisdýfu Sjálfstæðisflokksins í könnuninni nú megi rekja að umtalsverðu leyti til styrkjamálsins. Í könnunum að undanförnu hefur fylgi flokksins á landsvísu oft verið nálægt 25-26%. Nú mælist hann með 22% fylgi í Reykjavík norður sem er mikið fall ef mið er tekið af seinustu kosningum, þegar kjörfylgi hans reyndist 36,4% í kjördæminu. Könnunin er gerð dagana 8. til 13. apríl, þegar umræða og fréttir af fjárstyrkjunum bar hæst. Rétt er að hafa í huga að vikmörkin eru töluverð eða 4,2%.

Gætu náð vopnum sínum

Þó upplýsingar hafi líka komið upp á yfirborðið um umtalsverða fjárstyrki til Samfylkingarinnar, virðast þær ekki bitna á flokknum í þessari könnun. Fylgi hennar eykst og mælist nú rúm 34% í kjördæmi formannsins, Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra.

Fylgi VG stóreykst og fer úr 16,9% í kosningunum í 29,1% og Borgarahreyfingin fær 8,1% stuðning og nær mun betri árangri en áður hefur sést í könnunum.

Sveiflurnar sem þessi könnun ber með sér er þó ekkert einsdæmi eins og áður segir. Bæði Sjálfstæðisflokkur og Samfylking tóku mikla dýfu seint á seinasta ári, fóru niður undir 20% á landsvísu í könnunum og Framsóknarflokkurinn, sem mælist nú með aðeins 5,3% í Reykjavíkurkjördæmi norður, sveiflaðist úr um 8% fylgi á landsvísu yfir 17% í könnunum á fáum vikum fyrr í vetur. Margt getur því breyst á þeim tíu dögum sem eru til kosninga en reynslan sýnir að þegar nær dregur kosningum festa fleiri kjósendur ráð sitt og sveiflurnar minnka.

Sjálfstæðisflokkur fellur um 14 prósentustig

Vinstrihreyfingin – grænt framboð er hástökkvarinn að þessu sinni, mælist nú með 29,1% fylgi samanborið við 16,9% í kosningunum 2007. Fylgi Samfylkingarinnar mælist 34,3% og eykur hún fylgi sitt verulega, fékk 29,2% í kjördæminu í kosningunum 2007. Borgarahreyfingin fær skv. könnuninni 8,1% eða nokkru meira en Framsóknarflokkurinn sem missir fylgi og mælist nú með 5,3% (fékk 6,2% í síðustu kosningum). Hvorugur flokkurinn fengi mann kjörinn. Frjálslyndi flokkurinn mælist með 1,1% fylgi og missir miknn stuðning frá kosningum en hann fékk 6,3% í kjördæminu 2007. Fylgi Lýðræðishreyfingarinnar mælist 0,2%.

Skv. þessum niðurstöðum fengi Samfylkingin fjóra kjördæmakjörna þingmenn, VG þrjá og Sjálfstæðisflokkurinn tvo. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, næði ekki kjöri á þing skv. þessum niðurstöðum. Borgarahreyfingin er næst því að koma inn manni í kjördæminu, á kostnað fjórða mannsins á lista Samfylkingarinnar. Tvö uppbótarþingsæti eru að auki í kjördæminu.

Könnunin var gerð fyrir RÚV og Morgunblaðið dagana 8. til 13. apríl. Heildarúrtak var 800 manns, 18 ára og eldri. Svarhlutfallið var 60,5%.

Í hnotskurn


Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert