Tekist á um skattahækkanir

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Árni Sæberg

Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurði á Alþingi í dag hvort það væri virkilega svo, að stefna Vinstrihreyfingarinnar- græns framboðs væri að lækka laun opinberra starfsmanna og hækka jafnframt skatta á almenningi.

Sigurður Kári sagði í umræðu um störf þingsins, að Vinstri grænir væru nú að sýna sitt rétta andlit í kosningabaráttunni og vísaði til þess, að varaformaður flokksins hefði á borgarafundi í Reykjavík í gærkvöldi boðað að bæði ætti að lækka laun opinberra starfsmanna og jafnframt að hækka skatta.

Álfheiður Ingadóttir, þingmaður VG, sagði að það væri stefna flokksins, að fara blandaða leið til að stoppa í gatið sem Sjálfstæðisflokkurinn hefði skilið eftir á fjárlögum ríkisins. Bæði þyrfti að hækka skatta og skera niður.

„Það þarf að verja þau störf sem fyrir eru og sérstaklega störfin í velferðarþjónustunni, heilbrigðistþjónustunni, félagsþjónustunni, menntakerfinu. Þar þarf að jafna kjörin þannig að menn haldi ekki sínum ofurlaunum en aðrir missi vinnuna," sagði Álfheiður.

Árni Þór Sigurðsson, þingmaður VG, sagði flokkinn vilja koma á jöfnuði og réttlæti í skattkerfinu, koma í veg fyrir skattaundanskot og þeir sem beri mest úr býtum og eigi miklar eignir og fjármagn leggi meira að mörkum en aðrir.

Sigurður Kári sagði, að Vinstri grænar myndu ekki hjálpa heimilanna í landinu með því að taka stærri hluta tekna þeirra inn í ríkissjóð. Hann lagði áherslu á, að sjálfstæðismenn vildu ekki hækka skatta.

Árni Þór sagði, að eftir að sjálfstæðismenn áttuðu sig á því að þeir væru á leið í langa stjórnarandstöðu hefðu spunameistarar flokksins ákveðið að stefnan yrði að skattar yrðu ekki hækkaðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka