Sjálfstæðisflokkurinn mun síðar í dag leggja fram breytingartillögu á Alþingi við frumvarp um stjórnskipunarlög, þar á meðal við ákvæði um auðlindir. Flokkurinn hefur bætt setningu við þá tillögu, sem lögð var fram á fundi sérnefndar um stjórnarskrármál í dag og samkvæmt henni má hvorki selja náttúruauðlindir, sem ekki eru í einkaeign, né láta þær varanlega af hendi.
Samkvæmt tillögum meirihluta nefndarinnar verður sérstöku ákvæði bætt við stjórnarskrána þar sem segir: Náttúruauðlindir í þjóðareign má ekki selja eða láta varanlega af hendi.
Sjálfstæðismenn lögðu á fundi nefndarinnar í dag fram tillögu um að ákvæðið verði orðað þannig:
Íslenska ríkið fer með forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt þeirra náttúruauðlinda sem ekki eru í einkaeign og hefur eftirlit með nýtingu þeirra eftir því sem nánar er ákveðið í lögum.
Vísuðu sjálfstæðismenn m.a. til þess, að margir fræðimenn og fleiri hafi talið hugtakið þjóðareign vera óljóst og geti valdið túlkunarvanda.
Þingmenn Framsóknarflokks og Samfylkingarinnar gagnrýndu þingmenn Sjálfstæðisflokks harðlega á Alþingi síðdegis fyrir þessa tillögu og sögðu þá vera að ganga erinda kvótaeigenda.
Tillaga sjálfstæðismanna hefur nú tekið breytingum er nú svohljóðandi:
Íslenska ríkið fer með forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt þeirra náttúruauðlinda sem ekki eru í einkaeign og hefur eftirlit með nýtingu þeirra eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Slíkar auðlindir má hvorki selja né láta varanlega af hendi.